Embætti landlæknis ætti að fagna viðleitni fólks með ADHD til að leita eftir greiningum og úrræðum sem bætt geta líf þess.
Stjórn ADHD samtakanna hefur í dag sent frá sér svofellda ályktun:
Herferð Embættis landlæknis gegn ADHD lyfjum verður að linna.
ADHD samtökin lýsa miklum vonbrigðum með málflutning Andrésar Magnússonar, yfirlæknis hjá Embætti landlæknis í fréttum Stöðvar 2, sunnudaginn 23. febrúar. Líkt og áður hefur borið við í málflutningi starfsmanna Embættis landlæknis, ýjar yfirlæknirinn að því að notkun ADHD lyfja sé óeðlilega mikil á Íslandi, greinir frá aðgerðum embættisins til að draga úr notkun ADHD lyfja hér á landi og talar um að það sé „...einhver rosalegur þrýstingur í samfélaginu um að fleiri og fleiri fái þessi lyf.“ Í ofanálag opinberar yfirlæknirinn vanþekkingu sína á virkni ADHD lyfja, þegar hann segir þau geta valdið því að “... börn taki ekki út allan vöxt“ og veltir því upp sem mögulegri skýringu á vaxandi notkun, að hér á landi sé „... meira álag á fólki...“ eða „... meiri krafa um að geta einbeitt sér lengur og sitja kjurr?“. Hér túlkar yfirlæknirinn jákvæða virkni ADHD lyfja eins og um misnotkun fíkils væri að ræða, eða sem kannski verra er gefur hreinlega í skyn að foreldrar séu að dópa börnin sín.
Staðreyndin er sú, að á liðnum árum hefur orðið gríðarleg viðhorfsbreyting í samfélaginu gagnvart ADHD. Þeirri skömm sem áður ríkti um þessa meðfæddu taugaröskun hefur sem betur fer verið eytt að mestu. Fleiri og fleiri átta sig á þeim meðfæddu eiginleikum sem í ADHD geta falist, sækja sér læknisfræðilega greiningu og leita með opnum huga leiða til að auka lífsgæði sín í samræmi við bestu fáanlegu þekkingu og þau úrræði sem bjóðast í samfélaginu. Þetta á líka við um fullorðna einstaklinga, enda löngu þekkt að bæði fullorðnir sem heild, og um leið ekki síst konur og stúlkur eru hópar sem hafa verið vangreindir fram til þessa. Ekki einungis hér á landi, heldur um allan heim.
Vissulega eru örvandi ADHD lyf ekki eina úrræðið sem til boða stendur, en um leið sú meðferð sem sýnir langsamlega bestan árangur. Í ofanálag eru t.d. sálfræðiþjónusta og aðrar leiðir en geðlæknaþjónusta og lyfjameðferð ekki niðurgreidd af hinu opinbera. Jafnvel í tilfelli barna sem vissulega eiga rétt á slíkri niðurgreiðslu neyðast foreldrar til að borgar fúlgur fjár úr eigin vasa þar sem kerfið segir einfaldlega nei.
Að sjálfsögðu ber Embætti landlæknis að hafa eftirlit með lyfjanotkun almennt, en í þessu tilfelli er löngu tímabært að embættið hætti að hjakka í gömlum hjólförum. Að mati ADHD samtakanna ætti Embætti landlæknis frekar að fagna viðleitni fólks með ADHD til að leita eftir greiningum og úrræðum sem bætt geta líf þess, hvort sem um ræðir börn eða fullorðna. Herferð landlæknisembættisins gegn notkun gagnreyndra lyfja sem fyrir löngu hafa sannað jákvæða virkni sína fyrir fólk með ADHD verður að linna.
Reykjavík, 25.02.2020
Stjórn ADHD samtakanna.