Ferðalag í flughálku - Ný bók Sólveigar Ásgrímsdóttur komin út

Þorsteinn Eyþórsson og Sólveig Ásgrímsdóttir
Þorsteinn Eyþórsson og Sólveig Ásgrímsdóttir

ADHD samtökin gáfu í dag út bókina „Ferðalag í flughálku – Unglingar og ADHD“ eftir Sólveigu Ásgrímsdóttur, sálfræðing og fyrrverandi forstöðumann á Stuðlum. Höfundur tileinkar bókina starfsfólki og skjólstæðingum Meðferðarstöðvar ríkisins að Stuðlum. Efnt var til útgáfuhófs í verslun Pennans við Austurstræti þar sem Þorsteini Eyþórssyni var afhent fyrsta eintak bókarinnar.

Sólveigu Ásgrímsdóttur, höfundi bókarinnar þótti skorta bók um ADHD og unglinga. Nafnið vísar til þess að unglingur með ADHD þarf að feta hálar brautir unglingsáranna og komast heill í höfn. Tilgangur bókarinnar er að reyna að svara að einhverju leyti algengum spurningum um ADHD. Hún er skrifuð fyrir foreldra, kennara og ekki síst fyrir unglingana sjálfa. Fjallað er um ADHD og áhrif röskunarinnar á líf unglingsins, fjölskyldu hans og nám. Þá er lögð áhersla á samskipti unglings við foreldra, kennara og aðra fullorðna. Fjallað er um sjálfsmynd unglinga, hegðunarvanda og þau vandamál sem oft fylgja unglingum með ADHD heima og í skóla. Loks er bent á leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum ADHD á unglinga, fjölskyldur þeirra og skólagöngu.

Ástæða þess að bók þessi var rituð er að höfundi þótti skorta bók um ADHD og unglinga. Reynt var að gera bókina þannig úr garði að hún höfðaði fremur til almennings en til fræðimanna. Því er fræðilegum tilvitnunum stillt í hóf sem og skilgreiningum umfram það sem ekki varð
undan vikist. Því er hér lögð áhersla á hvernig hægt sé að mæta unglingum með ADHD heima og í skóla.

Unglingar með ADHD, foreldrar þeirra og kennarar standa oft frammi fyrir miklum og alvarlegum vanda, og því þarf að leggja áherslu á að þær leiðir og aðferðir, sem kynntar eru í bókinni eru hvorki auðveldar né fljótfarnar. Þær hafa þó sýnt sig koma að gagni og verið staðfestar í rannsóknum.

     
     

 

Segja má að Þorstein Eyþórsson eða „Steini“ hafi tryggt fjárhagslegan grundvöll bókarinnar. Hann hjólaði hringinn kringum landið, safnaði áheitum og færði ADHD samtökunum að gjöf. Það var þvi vel við hæfi að Steini tæki við fyrsta eintaki bókarinnar í dag.

Bókin verður fáanleg á skrifstofu ADHD samtakanna, Háaleitisbraut 13, Reykjavík og á vef samtakanna, www.adhd.is Þá verður hún til sölu í öllum verslunum Pennans Eymundsson.

 KAUPA BÓK

Senda póst til ADHD samtakanna