Eyþór Ingi Fréttablaðið/Villi
Fréttin er tekin af visir.is sunnudaginn 10. febrúar 2013 hér
Eyþór Ingi hefur aldrei verið mikill námsmaður. Hann hefur gert tvær misheppnaðar tilraunir til að leggja stund á nám í
tónlist en hefur að mestu kennt sér sjálfur. Tóneyrað segist hann hafa frá afa sínum sem hefur aldrei lært á neitt
hljóðfæri en getur þó gripið í þau flest. Fréttablaðið/Villi
"Frá því í leikskóla hef ég verið voða upptekinn að því að verða leikari eða söngvari. Sem krakki horfði
ég mikið á myndir með Elvis Presley og söng lögin hans svo á leikskólanum á mjög bjagaðri ensku. Það eru til skemmtileg
fjölskyldumyndbönd frá minni barnæsku þar sem ég syng til dæmis Amonsjúka, sem átti að vera All Suit Up, og reyndi að kenna foreldrum
mínum að hreyfa sig eins og Elvis," segir Eyþór Ingi og hlær.
Fjölskyldufaðirinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson er fæddur á Dalvík árið 1989. Hann ólst þar upp en býr nú í
Kópavoginum og er í fullri dagvinnu sem pabbi. Á kvöldin klæðir hann sig svo oftar en ekki í rokkgallann og skemmtir fólki með
frábærri söngröddinni. "Ég hef verið að koma fram frá því ég var smá pjakkur, þá annaðhvort með
harmonikkuna eða sem Ladda-eftirherma og ég hef alltaf fengið mikinn stuðning. Afi er duglegur að rifja það upp þegar ég var með honum í
hesthúsinu og karlarnir í kring komu í kaffi. Þá vippaði ég mér upp á einn heybaggann og söng fyrir þá. Mamma og pabbi
leyfðu mér líka oft að skemmta þeim sem komu í heimsókn. Svo var ég algjör límheili þegar ég var yngri og þuldi til
dæmis upp heilu þættina af Heilsubælinu fyrir gesti og gangandi," rifjar hann upp.
Feimni hrjáði hann því ekki á sínum yngri árum en hann segir hana hafa ágerst með árunum. "Það er alltaf
ákveðið óöryggi í mér. Ég er stundum á barmi þess að kasta upp úr stressi áður en ég kem fram en
það lagast yfirleitt um leið og ég kem á sviðið því þar líður mér svo vel."
Eyþór hélt til Akureyrar árið 2006, hóf nám í VMA og sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd skólans
árið 2007. "Ég lullaðist í gegnum eina önn, tók þátt í keppninni og hætti svo eiginlega strax eftir hana," segir Eyþór
sem að eigin sögn hefur aldrei verið mikill námsmaður, enda með bullandi athyglisbrest og mikla lesblindu. "Ég hef samt gert tvær misheppnaðar tilraunir
til að læra tónlist," segir hann og rifjar upp fyrri tilraunina.
"Afi minn er mikill músíkant og getur gripið í flest hljóðfæri, þrátt fyrir að hafa aldrei lært á eitt einasta. Hann var alltaf
tuðandi yfir því að geta ekki lesið nótur svo ég ákvað að læra á harmonikku svo ég gæti kennt honum það.
Það gekk ekki alveg sem skyldi því ég fylgdist aldrei með nótunum heldur spilaði bara eftir eyranu," segir hann hlæjandi.
"Það er klárt mál að ég hef tóneyrað frá afa. Mömmu finnst reyndar voðalega gaman að syngja og pabbi getur blístrað heilu
lögin eins og verið sé að spila þau á flautu, sem ég skil ekki því sjálfur get ég ekki blístrað. Ég hef samt
aldrei heyrt pabba syngja en langar mikið til þess."
Sjá fréttina alla á
visir.is