Elín H. Hinriksdóttir formaður ADHD
Aðalfundur ADHD samtakanna 2015 var haldinn í kvöld, mánudag 23. mars. Fundurinn var einn sá fjölmennasti sem haldinn hefur verið síðustu
árin.
Á fundinum fór fram stjórnarkjör og var Elín H. Hinriksdóttir endurkjörin formaður samtakanna til tveggja ára. Tveir nýir
fulltrúar koma inn í stjórn, þau Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur og Ásta Sóley Sigurðardóttir,
lögfræðingur. Sigríður Stephensen Pálsdóttir gekk úr stjórn og Björk Þórarinsdóttir hafði sagt sig frá
stjórnarstörfum í lok árs 2014.
Stórn ADHD samtakanna 2015-2016 er þannig skipuð:
Elín Hoe Hinriksdóttir, formaður (til 2017)
Sigurvin Lárus Jónsson, varaformaður (til 2017)
Drífa Björk Guðmundsdóttir, ritari (til 2016)
Elín Hrefna Garðarsdóttir, gjaldkeri (til 2016)
Ellen Calmon, meðstjórnandi (til 2017)
Sólveig Ásgrímsdóttir, meðstjórnandi (til 2016)
Vilhjálmur Hjálmarsson, meðstjórnandi (til 2016)
Varamenn:
Snorri Páll Haraldsson (til 2016)
Ásta Sóley Sigurðardóttir (til 2017)
Félagslegir skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir en þau eru Kristjana Ólafsdóttir og Ólafur Torfason.
Starfsemi ADHD samtakanna var mjög blómleg árið 2014. Félagatalið hefur vaxið umtalsvert síðustu tvö ár og eru félagsmenn nú
tæplega 2.300. Framboð námskeiða var fjölbreytt og bættust við ný námskeið fyrir unglinga og einnig fyrir fullorðna með ADHD.
Þá var farið með námskeið fyrir foreldra barna með ADHD til Akureyrar og verður haldið áfram að auka þjónustu utan
höfuðborgarsvæðisins, m.a. með auknu námskeiðahaldi.
Mjög fjölmennt málþing var haldið í vitundarmánuði í október og stóðu samtökin í byrjun vitundarmánaðar
að útgáfu bókarinnar "Leyndardómar heilans - Láttu verkin tala" eftir Dr. Ara Tuckman. Um er að ræða
handbók/verkefnabók fyrir fullorðna með ADHD.
Aðalfundur ADHD samtakanna 2015 samþykkti breytingar á gildandi lögum.
Fyrst er að nefna breytingar á þeirri grein sem fjallar um lagabreytingartillögur og hvenær beri að skila þeim til stjórnar samtakanna. Þá
var skerpt á orðalagi um stjórnarkjör og skýrð ákvæði sem eiga við, hætti stjórnarmaður á miðju
kjörtímabili. Loks samþykkti aðalfundurinn tillögu um sólarlagsákvæði, þannig að formaður getur ekki setið lengur en
þrjú heil kjörtímabil samfellt.
Tillögu um atkvæðarétt og kjörgengi á aðalfundi var vísað til nýkjörinnar stjórnar til frekari vinnslu.
Rekstur ADHD samtakanna árið 2014 var í góðum takti við áætlanir og var réttu megin við núllið.
Ánægjulegt var að sjá og finna þann áhuga sem birtist í góðri fundarsókn og sömuleiðis gleðilegt til þess að
vita að fjöldi nýrra félagsmanna er reiðubúinn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttu fyrir bættum hag
einstaklinga með ADHD og aðstandenda þeirra.