Ungmennaráð UNICEF á Íslandi stendur nú fyrir átakinu Heilabrot en markmið þess er að vekja athygli á viðvarandi úrræðaleysi í geðheilbrigðismálum barna og unglinga og vinna gegn fordómum. Stuttmyndin Heilabrot var frumsýnd í gærkvöldi í Bíó Paradís að viðstöddu margmenni og verður sýnd í framhaldsskólum víða um land.
Í myndinni fer fótbrotinn drengur í gegnum heilbrigðiskerfið eins og um barn með geðröskun væri að ræða. Hann kemur inn á bráðamóttöku og þarf á læknishjálp að halda en er sagt að koma aftur eftir nokkra mánuði. Þetta er veruleiki margra barna með geðrænan vanda.
„Úrræðaleysi í geðheilbrigðismálum barna á Íslandi veldur því að mörg börn eru á biðlistum eftir greiningu og hjálp í ótrúlega langan tíma – allt upp í tvö til þrjú ár. Það er hlutfallslega mjög langur tími í lífi barns. Með því að gera ekkert verður líðan barna margfalt verri en hún þyrfti að vera,“ segir Sara Líf Sigsteinsdóttir í ungmennaráði UNICEF á Íslandi.
„Ef barn fær hjálp strax er hægt að koma í veg fyrir óþarfa vanlíðan og þjáningu. Við myndum aldrei láta fótbrotið barn bíða eftir hjálp,“ segir Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir, einnig í ungmennaráðinu.
Samhliða myndinni stendur ungmennaráðið fyrir táknrænni aðgerð þar sem fólki er boðið að sýna málefninu stuðning með því hringja í númerið 620-9112 og skilja eftir missed call hjá heilbrigðisráðherra, sem ber ábyrgð á þjónustu við börn með geðrænan vanda á Íslandi. Ungmennaráðið mun síðan afhenda ráðherranum símann með ósvöruðu símtölunum til að minna hann á að kalli margra barna um hjálp er ósvarað.
#viðerumbrjáluð Samhliða frumsýningu stuttmyndarinnar skipulögðu stjórnir margra nemendafélaga dagskrá þar sem staðan í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna á Íslandi var rædd. Stjórnirnar klæddust einnig bolum merktum átakinu, hvöttu nemendur til að skilja eftir "missed call" til heilbrigðisráðherra og nota hashtöggin #heilabrot, #égerekkitabú og #viðerumbrjáluð á samfélagsmiðlum.
Hægt að koma í veg fyrir óþarfa þjáningu Á mánudaginn tók ungmennaráð UNICEF á Íslandi yfir Twitter-síðu UNICEF á Íslandi og Snapchat samtakanna og mun nýta þá miðla til að deila upplýsingum og atburðum tengdu átakinu til almennings.
„Ástandið í geðheilbrigðismálum barna á Íslandi er óásættanlegt og við krefjumst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða strax. Ef til staðar væri viðeigandi þjónusta fyrir börn með geðraskanir væri hægt að koma í veg fyrir óþarfa þjáningu, vanlíðan, brottfall úr framhaldsskóla, örorku og sjálfsvíg. Börn með geðraskanir eiga rétt á stuðningi og tafarlausri hjálp við hæfi,“ segir Sara Mansour, formaður ungmennaráðs UNICEF á Íslandi.
Myndin er framleidd í samstarfi við unga kvikmyndagerðarmenn í Esja Productions, Andra Sigurð Haraldsson og Kolbein Sveinsson.