Neðangreind frétt birtist í Fréttablaðinu 13.
apríl 2013
Fullorðnum einstaklingum sem leita sér aðstoðar vegna athyglisbrests hefur fjölgað mikið á undanförnum misserum og er biðtími eftir að
komast í greiningarviðtal hjá geðlækni allt að eitt ár. Ástæða biðtímans helgast aðalega af skorti á geðlæknum
auk þess sem ekki taka allir starfandi geðlæknar að sér meðferð einstaklinga með ADHD-röskun.
Kristófer Þorleifsson geðlæknir segir neikvæða umræðu um ADHD og lyfjameðferð hluta ástæðunnar. Margir læknar vilji
firra sig óþægindum.
"Sumir treysta sér ekki til að vinna greiningar- og meðferðarvinnu í kringum ADHD og svo eru aðrir sem hafa tekið
þá ákvörðun að firra sig óþægindum og þurfa þá ekki að liggja undir ámælum um að vera ávísa
einhverju sem ekki á að ávísa," segir Krisófer.
Hann segir mikilvægt að styrkja grunnstoðir heilsugæslunnar og létta þannig á sérfræðingum. Hann bendir á að nú sé
búið að mynda teymi á göngudeild geðdeildar Landspítalans þar sem heimilislæknar geta vísa einstaklingum í greiningu.
"Þar fer þá fram kembileit og greinist einstaklingurinn með kvillann er honum vísað aftur til aðilans sem vísaði honum í greininguna og
meðferðin þá í hans höndum. Það á hins vegar eftir að leysa praktísk mál í því eins og að heimila
heimilislæknum að sækja um lyfjakort."
Kristófer segir að þessi þjónusta verði vonandi til mikilla bóta en óttast þó að mikil eftirspurn verði til þess að
biðtíminn eftir greiningu þar verði einnig langur.
Ellen Calmon, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, segir samtökin
fá fjölda fyrirspurna á degi hverjum frá einstaklingum sem viti ekki hvert þeir eigi að snúa sér til að fá greiningu og komist ekki að
hjá geðlækni. Margir líða fyrir ástandið en Ellen segir mikilvægt að greina ADHD fljótt til að koma í veg fyrir mögulegar
afleiðingar af ómeðhöndluðu ADHD.
"Ef einstaklingur fær ekki einhvers konar meðferð er hætta á að hann þrói með sér kvíða, sem leiðir af sér
depurð, sem getur leitt til þunglyndis," segir Ellen.
Hún segir nauðsynlegt að ríkið komi að niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu og komi að fjölbreyttari
meðferðarúrræðum.
"Það er til fullt af öðrum meðferðarúrræðum en bara lyf og má þá nefna hópatferlismeðferð, hugræna
atferlismeðferð og markþjálfun. Þessar meðferðir eru vegum sálfræðinga og einkaaðila en ríkið niðurgreiðir einungis
lyfjameðferð."
Fréttablaðið 13.apríl 2013