Engar breytingar hafa tekið gildi vegna ávísunar nokkurra eftirritunarskyldra lyfja, þar með talið ADHD lyfja. Svo virðist sem einhverjir lyfsalar og læknar séu farnir að vinna samkvæmt hugmyndum að breytingum sem Lyfjastofnun fyrirhugaði en þeim áætlunum var frestað um óákveðinn tíma. Unnið er að útfærslu breytts fyrirkomulags í samráði við fagaðila og verður sú útfærsla kynnt með góðum fyrirvara. Ávísanir ADHD lyfja og afgreiðsla þeirra, eiga því að vera með óbreyttu sniði.
Lyfjastofnun hefur áður greint frá því á heimasíðu stofnunarinnar að til skoðunar eru ráðstafanir til að hamla gegn misnotkun eftirritunarskyldra lyfja. Í frétt stofnunarinnar þann 20. október 2017 kemur m.a. fram að frestað var til 1. janúar 2018 að taka ákvörðun um ráðstafanir og að frekari útfærsla yrði tilkynnt síðar.
Af gefnu tilefni skal tekið fram að frekari útfærsla hefur ekki verið tilkynnt. Engar breytingar urðu um nýliðin áramót varðandi takmörkun á ávísun eftirritunarskyldra lyfja.
Sem fyrr segir mun Lyfjastofnun greina frá því þegar útfærsla á breytingunum liggur fyrir. Þá verður einnig greint frá því hvenær þær taka gildi og eins og fram kemur í frétt stofnunarinnar þann 20. október sl. verður leitast við að vinna að farsælli útfærslu í samráði við við fagaðila.
Frétt á vef Lyfjastofnunar
Senda póst til ADHD samtakanna