Björk Þórarinsdóttir fyrrverandi gjaldkeri og formaður ADHD samtakanna er látin. Björk var 51 árs að aldri þegar hún varð bráðkvödd fimmtudaginn 17. desember.
Björk var kjörin formaður ADHD samtakanna árið 2010 og gegndi því embætti til 2014. Hún var kjörin gjaldkeri samtakanna á aðalfundi 2014 og gegndi því starfi til loka árs 2014.
Björk Þórarinsdóttir var vakin og sofin í starfi fyrir ADHD samtökin og vann mikið og óeigingjarnt starf í þágu einstaklinga með ADHD og fjölskyldna þeirra. Björk átti drjúgan þátt í breyttri ímynd samtakanna og nálgun þeirra á fjölbreytt viðfangsefni, átti meðal annars frumkvæði að útfærslu á fjölbreyttu kynningarefni sem ADHD samtökin hafa gefið út síðastliðin ár, bókaútgáfu og ráðstefnuhaldi.
Björk starfaði ötullega fyrir Öryrkjabandalag Íslands, bæði í sjálfboðavinnu og verktöku.
Björk Þórarinsdóttir lætur eftir sig eiginmann og tvo uppkomna syni.
Stjórn og starfsfólk ADHD samtakanna senda aðstandendum og ástvinum Bjarkar hugheilar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímamótum.
Minningin um öflugan liðsmann og góðan félaga lifir.