Ályktun stjórnar ADHD samtakanna
Stjórn ADHD samtakanna átelur síendurtekinn villandi málflutning starfsmanna Embættis landlæknis, um meintar ofgreiningar á ADHD og óeðlilega notkun lyfja vegna ADHD á Íslandi. Málflutningur starfsmanna embættisins byggir ekki á vísindalegum forsendum eða er í besta falli mistúlkun á fyrirliggjandi gögnum. Jafnframt felur þetta í sér alvarlega aðdróttun um að íslenskir geðlæknar og sálfræðingar hafi um árabil stundað kerfisbundið fúsk við greiningar á ADHD og læknisfræðilegar ráðleggingar þeim tengdum. Ef mikill munur er milli greiningar og meðferðar ADHD hér á landi og annarra Norðurlanda er það vert rannsóknarverkefni sem skoða þarf með faglega réttum aðferðum en ekki afgreiða með órökstuddum tilgátum.
Stjórn ADHD samtakanna bendir á, að greiningar á ADHD og úrræði þeim tengd, byggja á klínískum leiðbeiningum Embættis landlæknis og embættisins að tryggja að eftir þeim sé farið. Ekkert í starfsemi embættisins á liðnum árum hefur gefið tilefni til að ætla að hér sé pottur brotinn með svo alvarlegum hætti eins og nú er gefið í skyn. Þvert á móti bendir flest til að hér á landi glími þúsundir einstaklinga við ómeðhöndluð einkenni ADHD og annarra taugaþroskaraskana, vegna vangreininga (jafnt fullorðnir sem börn) enda lengjast biðlistar stöðugt og getur biðtími eftir greiningum verið vel yfir 2 ár.
Að gefnu tilefni skal Embætti landlæknis jafnframt bent á að tölur um fjölda greininga og notkun ADHD lyfja hér á landi þurfi að skoða í mun víðara samhengi en gert hefur verið. Þau vinnubrögð sem starfsmenn embættisins hafa hingað til beitt, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar, jaðra við vítavert gáleysi af þeirra hálfu og hvorki stofnuninni sæmandi né landlækni sjálfum.
Þess er krafist að Embætti landlæknis dragi til baka dylgjur starfsmanna embættisins um meintar ofgreiningar fagfólks og ofnotkun lyfja vegna ADHD, enda slíkur málflutningur til þess eins fallinn að ala á fordómum í garð einstaklinga með ADHD og þeirra fáu úrræða sem aðgengileg eru og best hafa nýst hér á landi.
Stjórn ADHD samtakanna