Nýjasta bók barnabókahöfundarins Gunnars Helgasonar, Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja var að koma út og hún fjallar á bráðskemmtilegan, spennandi og hjartnæman hátt um hvernig það er að vera með barn með ADHD. Sagan fjallar Alexander og Sóleyju bekkjarsystur hans, litríku fjölskyldurnar þeirra, mömmuna sem er farin og kennarann sem ætti ekki að fá að vinna með börnum.
Gunnar Helgason er fæddur 24. nóvember 1965. Hann er leikari, leikstjóri, dagskrárgerðarmaður fyrir sjónvarp og rithöfundur. Fyrsta bók hans, Goggi og Grjóni, kom út árið 1992 og síðan hefur Gunnar skrifað fjölmargar barnabækur, þar á meðal geysivinsælar bækur um fótboltastrákinn Jón Jónsson. Hann fékk Vorvindaverðlaun IBBY árið 2013 fyrir fótboltabækur sínar og sama ár hlaut hann Bókaverðlaun barnanna fyrir Aukaspyrna á Akureyri (2012). Gunnar hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bók sína Mamma klikk.
Bókina er hægt að nálgast hér á vefverslun ADHD Samtakanna.