ADHD samtökin hafa þrýst á heilbrigðisyfirvöld um að taka á málefnum fullorðinna sem greindir hafa verið með athyglisbrest.
Þingmaður hefur óskað eftir fundi í velferðarnefnd um fyrirhugaðan niðurskurð á greiðslu ríkisins í lyfjum.
„Við höfum þegar haft samband við fjárlaganefnd og rætt við formann hennar auk þess að senda öllum þingmönnum bréf um
málið. Við vonumst til að það hafi áhrif til breytinga,“ segir Ellen Calmon, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna.
Fyrir Alþingi liggur tillaga um að hætta niðurgreiðslum á metýlfenidatlyfjum fyrir fullorðna sem notuð eru við athyglisbrest og ofvirkni.
Bent er á að ekki séu til staðar klínískar leiðbeiningar fyrir notkun þeirra fyrir 18 ára og eldri.
Mikil umræða hefur
orðið um málið eftir grein Stefáns Boga Stefánssonar, forseta bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs þar sem hann greindi frá
því að hann nýlega verið greindur með athyglisbrest. Lyfjagjöf hefði reynst honum best af þeim meðferðarúrræðum sem hann
hefði prófað. Hann lýsti þar miklum áhyggjum sínum af tillögum um að niðurgreiðslu ríkisins yrði hætt.
Greinin hefur hlotið mikla athygli. Margir hafa lagt orð í belg og skýrt frá eigin reynslu sem sé svipuð og Stefáns. Flokkssystir Stefáns
úr Framsóknarflokkinum, Eygló Harðardóttir, óskaði í dag eftir fundi í velferðarnefnd um niðurgreiðslu ríkisins á
lyfjunum fyrir fullorðna.
„Þar tel ég brýnt að ræða ekki bara þessa breytingu, heldur notkun á geð- og taugalyfjum á Íslandi almennt og skort
á heildstæðri geðverndarstefnu,“ skrifar hún á Facebook-síðu sína.
|