ADHD samtökin hafa fengið skráningu sem félag til almannaheilla.
ADHD samtökin hafa fengið formlega skráningu sem félag til almannaheilla í samræmi við nýsamþykkt lög um slík félög. Skráningin er mikilvæg viðurkenning á að markmið samtakanna séu samfélaginu til heilla og að öll umgjörð starfseminnar sé vel úr garði gerð. Við skráninguna bætist skammstöfunin fta við nafn samtakanna - ADHD samtökin fta.
Ný lög um félög til almannaheilla tóku gildi 1. nóvember sl. eftir áralanga baráttu Almannaheilla og fleiri almannaheillafélaga. Markmið laganna er ekki síst að tryggja betri skilgreiningu á rekstrarformi félaga sem starfa til almannaheilla og auka þannig tiltrú og traust á slíkum samtökum og gera þau betur fær um að sinna mikilvægum samfélagslegum verkefnum. Skráning sem félag til almannaheilla felur því í sér mikilvæga viðurkenningu hins opinbera á að rétt sé að málum staðið. Lögin heimila einnig að opinberir aðilar geti gert það að skilyrði fyrir styrkjum og samstarfi, að félög séu skráð sem félög til almannaheilla. Skráning ADHD samtakanna sem félag til almennaheilla er því mikilvægt skref í áframhaldandi eflingu samtakanna.
ADHD samtökin hafa einnig fengið skráningu á almannaheillaskrá skattsins en sú skráning veitir öllum styrktaraðilum samtakanna sjálfkrafa skattafslátt í samræmi við lög þar um.
Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10 - 350 þús. kr. á almanaksári, hjóna og sambúðarfólks alls 700 þús. kr. og kemur til lækkunar á útsvars- og tekjuskattsstofni en er ekki millifæranlegur og ber því að halda framlögum hvers einstaklings aðgreindum. Frádráttur rekstraraðila getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt.
ADHD samtökin skila skattayfirvöldum árlega yfirliti yfir alla styrktaraðila, þannig að skattaafsláttur viðkomandi ætti að færast sjálfkrafa á skattframtalið og þar með nýtast að fullu.
Hægt er að styrkja samtökin með framlögum á heimasíðu samtakanna eða með því að senda póst á adhd@adhd.is