Frá og með 2021 verður ADHD og/eða lyfjanotkun vegna ADHD ekki útilokandi þáttur í lögreglunámi.
Stjórn ADHD samtakanna fagnar þeirri breytingu sem gerð hefur verið á inntökuskilyrðum til starfsnáms í lögreglufræði. Frá og með árinu 2021 verður ADHD og/eða lyfjanotkun skv. læknisráði vegna ADHD ekki útilokandi þáttur í umsóknarferli og er hér stigið mikið framfaraskref.
ADHD samtökin hafa átt stóran þátt í þessum breytingum í samvinnu við Náms-og starfsþróunarsetur lögreglunnar. Mikil vinna hefur verið lögð í að komið verði til móts við einstaklinga með ADHD og þá sem sannarlega þurfa á lyfjum að halda til að auðvelda sér daglegt líf og störf.
Að auki hefur með viðtækri samvinnu tekist að breyta fyrirkomulagi starfsnáms á þá vegu að umsækjendur fara strax í upphafi umsóknarferlis í gegn um læknisfræðilegt mat áður en að eiginlegt nám er hafið og með því er komið í veg fyrir óþarfa tímaeyðslu og tilheyrandi fjárhagsleg útlát.
ADHD samtökin þakka aðilum Náms- og starfsþróunarseturs lögreglunnar fyrir gott samstarf og vilja til að mæta þörfum einstaklinga með ADHD.
F.h. stjórnar ADHD samtakanna,
Elín H. Hinriksdóttir, formaður.