Opinn spjallfundur um ADHD og heimanám á Akureyri
ADHD og heimanám. ADHD Norðurland stendur fyrir opnum spjallfundi á Akureyri, um ADHD og heimanám, fimmtudaginn 22. ágúst næstkomandi. Fundurinn fer fram í húsnæði Grófarinnar, Hafnarstræti 95 og hefst kl. 20:00.
Eftir sólríkt sumar eru skólarnir nú, hver á fætur öðrum að hefja starfsemi sína á ný og ekki seinna að vænna að hefja undirbúning námstarnarinnar sem framundan er. Enda er lykillinn að góðum árangri gott skipulag og öguð vinnubrögð strax frá fyrsta degi, ekki síst hjá þeim sem þurfa að taka námið fastari tökum en ella. Á fundinum mun Jóna Kristín Gunnarsdóttir, kennari og stjórnarkona í ADHD samtökunum fara yfir helstu áskoranir þessa mikilvæga tímabils, benda á hagnýt ráð sem virka og leiða umræður.
Fundurinn ætlaður fólki með ADHD og foreldrum, forráðamönnum og nánum aðstandendum barna og ungmenna með ADHD.
Með virkri þátttöku fundargesta gefst einnig gott tækifæri til að læra af reynslu annarra og heyra uppbyggjandi reynslusögur. Á fundinum verður einnig hægt að nálgast bækling samtakanna, bækur um ADHD og annað fræðsluefni.
Spjallfundir ADHD Norðurland eru haldnir í Grófinni, Hafnarstræti 95., 4. hæð, fyrir ofan Apótekarann í göngugötunni. Fundirnir eru opnir öllum, félögum í ADHD samtökunum, einstaklingum með ADHD, aðstandendum og öðrum áhugasömum um ADHD og skildar raskanir. Hægt er að skrá sig á Facebook viðburð fundanna, þar sem fram koma fyrirhugaðir fundir á Akureyri og fundarefni, en áætlað er einn spjallfundur verði haldinn í hverjum mánuði - skráning hér.
Enginn aðgangseyrir er að fundunum og er ávallt heitt á könnunni.
Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest!