Október er alþjóðlegur vitundarmánuður fólks með ADHD.
ADHD - greining, meðferð og lyf bjarga lífum!
Október er alþjóðlegur vitundarmánuður fólks með ADHD og munu ADHD samtökin standa fyrir fjölbreyttum viðburðum til að vekja athygli á málefnum fólks með ADHD. Gera má ráð fyrir að hátt í 20.000 Íslendingar séu með ADHD - greint eða ógreint, börn og fullorðnir.
Í ár verður athyglinni sérstaklega beint að mikilvægi greininga, meðferðar og lyfja fyrir fólk með ADHD og því ófremdarástand sem í þeim málum ríkir hér á landi, en biðtími eftir þessari mikilvægu þjónustu er um tvö ár.
Þessi langi biðtími eftir greiningum, skortur á meðferðarrúrræðum og gríðarlegir fordómar gagnvart notkun ADHD lyfja skerða lífsgæði þúsunda einstaklinga á degi hverjum og valda þeim og samfélaginu öllu gríðarlegum skaða. Aðgerðarleysi stjórnvalda er í raun óskiljanlegt enda málið grafalvarlegt - dauðans alvara!
Til að vekja athygli á ástandinu og auka þekkingu og skilning á mikilvægi greininga, meðferðar og lyfja vegna ADHD hafa ADHD samtökin unnið nokkur kynningarmyndbönd og tekið saman upplýsingar um verndandi áhrif greininga, meðferðar og lyfja fyrir fólk með ADHD og samfélagið í heild.
Kynningarefnið má finna hér: ADHD – greining, meðferð og lyf bjarga lífum!
Þú ert númer 1250 í röðinni... málþing ADHD samtakanna.
Í lok mánaðarin, fimmtudaginn 27. október standa ADHD samtökin síðan fyrir opnu málþingi undir yfirskriftinni Þú ert númer 1250 i röðinni... Þar verður fjallað um það ástand sem hér ríkir og þær alvarlegu afleiðingar sem ómeðhöndlað ADHD og langir biðlistar hafa fyrir fólk með ADHD og samfélagið allt.
Meðal fyrirlesara verða Haraldur Erlendsson, geðlæknir, Anna Tara Andrésdóttir, doktorsnemi, Elvar Daníelsson, geðlæknir og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður. Skráning og nánari upplýsiingar á heimasíðu ADHD samtakanna: Þú ert númer 1250 í röðunni...
Endurskinsmerki Hugleiks Dagssonar.
Fjáröflun ADHD samtakanna, með sölu endurskinsmerkja Hugleiks Dagssonar fer einnig fram í október. Hægt er að kaupa endurskinsmerkin á vef samtakanna og hjá sölufólki víða um land. Endurskinsmerki Hugleiks Dagssonar.
Tökum virkan þátt í vitundarmánuði fólks með ADHD - líf og fjör um allt land!