ADHD - er mataræði málið?

Fræðslufundur um tengsl ADHD og mataræðis.
Fræðslufundur um tengsl ADHD og mataræðis.

Fræðslufundur ADHD samtakanna, fimmtudaginn 11. apríl 2019 kl. 20:00 í húsi Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8 i Reykjavík. Fundinum verður einnig streymt beint til Akureyrar, í húsnæði Grófarinnar, Hafnarstræti 95, 4 hæð, til Hornafjarðar í húsnæði Nýheima, Sauðárkróks í húsnæði Farskólans.

Vegna gríðarlegs áhuga og eindreginna óska vítt og breytt af landinu, hafa ADHD samtökin ákveðið að bjóða félagsmönnum ADHD samtakanna, einnig uppá ókeypis streymi frá fræðslufundinum. Nýir og skuldlausir félagsmenn samtakanna, geta óskað eftir skráningu í Facebook hópinn ADHD í beinni og fylgst með viðburðinum þar - sem og öðrum viðburðum ADHD samtakanna í framtíðinni. Eins og annað í starfsemi samtakanna, gildir félagsaðildin fyrir þann sem er skráður og þá fjölskyldumeðlimi sem eru búsettir á sama stað.

Dr. Bryndís Eva Birgisdóttir, næringarfræðingur og Dr. Bertrand Lauth, geðlæknir fjalla um rannsóknir á tengslum ADHD og mataræðis.

Matur hefur mikinn mátt. Hann flæðir um kroppinn eftir hverja máltíð og getur haft ýmis dularfull áhrif sem gaman er að skoða. Á síðustu árum hefur rannsóknum á tengslum mataræðis og ADHD fleygt fram, en niðurstöður eru að hluta mótsagnakenndar og einstaklingsmunur mikill. Þó er ljóst að örveruflóra meltingarvegar hefur þar einhverju hlutverki að gegna, en mataræði er einn af þeim þáttum sem geta mótað hana. Þá virðist gott næringaástand alltaf vera mikilvægt þegar kemur að vellíðan og hreysti.

Bryndís Eva Birgisdóttir og Bertrand Lauth, hafa síðustu ár beint kröftum sínum meðal annars að tengslum mataræðis og geðraskana í öflugu þverfaglegu samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir. Í erindi þeirra verður farið yfir þær vísindarannsóknir sem gerðar hafa verið, bæði erlendar og svo nýlegar íslenskar rannsóknir og rannsóknaáætlanir.

Ókeypis aðgangur fyrir skuldlausa félaga ADHD samtakanna og fjölskyldumeðlimi þeirra, en kr. 1.000,- í aðgangseyri ella. Hægt er að gerast félagsmaður í ADHD samtökunum á þessari slóð.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir – skráning fer fram á Facbook síðu fundarins.

Dr. Bryndís Eva Birgisdóttir lauk grunnnámi í næringarfræði með fókus á lífvísindi frá Háskólanum í Stokkhólmi í samvinnu við Karolinska Institutet. Hún hlaut síðar starfsréttindi sem næringarfræðingur eftir framhaldsnám í klínískri næringarfræði við Háskólann í Gautaborg og starfaði sem slíkur um tíma. Í framhaldinu fór hún í doktorsnám og lauk doktorsprófi frá Raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 2002. Þá starfaði hún áfram við rannsóknir og kennslu við HÍ og síðar rannsóknir við Norsku lýðheilsustöðina í Osló. Hún kom til starfa við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ á nýjan leik árið 2013 og er í dag prófessor við deildina.

Dr. Bertrand Lauth er sérfræðingur í geðlækningum og barna- og unglingageðlækningum (sérfræðimenntun í Frakklandi, Lille og Paris). Hann starfaði sem sérfræðingur á Fondation Vallée (Háskólasjúkrahús) í Paris 1989-1998, og síðan á BUGL (Landspítala) frá 1998. Bertrand lauk doktorsprófi í líf- og læknavísindum frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2011 og starfaði sem lektor við læknadeild HÍ frá 2013. Bertrand er höfundur rannsókna, greina og bókakafla í barna- og unglingageðlæknisfræði.