"Þetta er í rauninni ein mesta heilsuógn og einn dýrasti sjúkdómur mannkynsins, sérstaklega á Vesturlöndum,” segir Haraldur Erlendsson, geðlæknir og forstjóri Heilsustofnunarinnar í Hveragerði, Hann segir mikinn misskilning ríkja á röskuninni og furðar sig á því að menn efist enn um að meðhöndla eigi þessi einkenni hjá fullorðnum.
Haraldur Erlendsson segir ADHD eiga stóran þátt í ýmsu sem verið sé að glíma við í nútímaþjóðfélagi. Vandamálum eins og fíkn, glæpum, námserfiðleikum, fjölskylduvandræðum, slysum og vinnutapi vegna veikinda. Ómeðhöndlað ADHD kosti þjóðfélagið mikið. Haraldur tekur hins vegar fram að mikill mannauður búi í þessum hópi fólks, svo fremi að farið sé í átak til að meðhöndla sjúkdóminn.
„Það kostar gríðarlega peninga að koma því af stað en á endanum mun það líklega spara þjóðfélaginu gríðarlega peninga,” segir Haraldur Erlendsson geðlæknir í viðtalinu.
Stöð 2 fjalllaði um ADHD í fréttum sínum í kvöld en tilefnið var ný þriggja þátta sería sem hóf göngu sína á sjónvarpsstöðinni í kvöld, "Örir Íslendingar." Þar fjallar Lóa Pind Aldísardóttir um ADHD og fylgir fjórum fullorðnum einstaklingum, dansara, rafvirkja, sjónvarpskonu og háskólanema, sem öll eru nýgreind með ADHD. Rýnt er í hvernig þau takast á við röskunina, galla hennar og kosti og skoðuð eru áhrif ofvirknilyfja.
Í frétt Stöðvar 2 kom ennfremur fram að ríflega þrefalt fleiri fullorðnir fá í dag ávísað ofvirknilyfjum en fyrir tæpum áratug. Samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu sem vísað er í, fengu ríflega þúsund fullorðnir ávísað methylfenidat lyfjum, á borð við Rítalín og Concerta, árið 2006. Sá fjöldi hefur síðan vaxið hratt og meira en þrefaldast á aðeins níu árum. Viðsnúningurinn verður á árinu 2012 en það ár fá í fyrsta skipti fleiri fullorðnir en börn ávísað ofvirknilyfjum.
Rétt er að taka fram í þessu samhengi að með aukinni þjónustu við fullorðna, greiningum og meðhöndlun og ekki síst með tilkomu ADHD teymisins, sem veitir fullorðnum einstaklingum með ADHD ómetanlega aðstoð, eykst lyfjanotkun. Meðhöndlun og aukin aðstoð við fullorðna einstaklinga með ADHD rímar fullkomlega við það sem ADHD samtökin hafa lengi vakið athygli á og barist fyrir. Haraldur Erlendsson geðlæknir undirstrikar í viðtalinu mikilvægi þess að meðhöndla fullorðna einstaklinga með ADHD og dregur fram hve mikil fjárfesting það er.
Í því sambandi er rétt að minna enn og aftur á að ríflega 600 fullorðnir einstaklingar bíða nú eftir þjónustu ADHD teymisins á Landspítala og rúmlega 400 börn bíða eftir þjónust Þroska- og hegðunarstöðvar ,líkt og ADHD samtökin hafa ítrekað vakið athygli á.
Frétt á visir.is
FLEIRI TENGDAR FRÉTTIR
Börnin látin bíða
Opið bréf til þingmann: Ég er heppinn - Ég var greindur
Börn eiga ekki heima á biðlistum
Ég er líka brjáluð!
Hvaða áform hefur ráðherra vegna biðlista?