Aðalfundur ADHD samtakanna

Aðalfundur ADHD samtakanna verður haldinn mánudaginn 20.mars 2017 í fundarsal, 4.hæð - Háaleitisbraut 13. Fundurinn hefst klukkan 20:00

Meðal aðalfundarstarfa er kosning formanns, varaformanns, eins aðalstjórnarmanns og eins varamanns. Þá verða lagðar fyrir lagabreytingar um kjörgengi.

Í lögum ADHD samtakanna segir meðal annars:

6. grein – aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna.

Aðalfund skal halda í mars mánuði ár hvert. Til hans skal boðað með sérstöku fundarboði sem sent er félagsmönnum með að minnsta kosti viku fyrirvara og er hann þá lögmætur. Sömuleiðis skal tilkynnt um hann í fjölmiðlum.

Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé sérstaklega getið í lögum þessum, sbr. 7. grein.

Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

  1. Félagsstjórn gerir grein fyrir störfum samtakanna á liðnu starfsári.
  2. Félagsstjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna fyrir liðið ár til samþykktar. Reikningsár samtakanna er almanaksárið.
  3. Lagabreytingar.
  4. Kosning stjórnar.
  5. Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna til eins árs í senn.
  6. Ákvörðun félagsgjalda.
  7. Önnur mál.

Allar kosningar skulu vera skriflegar ef fleiri en eitt framboð kemur fram.

Fundargerð skal skráð um störf aðalfundar.

Lögum samtakanna verður aðeins breytt á aðalfundi þeirra. Skriflegum tillögum þar að lútandi skal skila til stjórnar félagsins, áður en til aðalfundar er boðað, með rafrænum eða öðrum rekjanlegum hætti og skal þeira sérstaklega getið í fundarboði, svo sem nánar er tilgreint í 2.mgr. hér að ofan. Lagabreyting telst samþykkt ef ¾ hlutar fundarmanna á löglega boðuðum aðalfundi greiða henni atkvæði.

7. grein – stjórn samtakanna

Stjórn samtakanna er skipuð sjö mönnum og tveim til vara. Formann, varaformann, gjaldkera og ritara skal kjósa sérstaklega.

Kjörtímabil aðalstjórnarmanna og varamanna er tvö ár.

Í aðalstjórn skal kjósa þannig:
Á oddatöluári skal kosið um formann, varaformann, einn aðalmann og einn varamann.
Á sléttu ártali skal kosið um gjaldkera, ritara, tvo aðalmenn og einn varamann.

Ef stjórnarmaður er á miðju kjörtímabili kosinn til annars embættis eða hann lætur af störfum af öðrum ástæðum, þá skal á næsta aðalfundi kjósa til eins árs í það embætti sem losnar.

Hætti kjörinn stjórnarmaður störfum milli aðalfunda, skal sá varamaður sem setið hefur lengur, taka sæti aðalmanns.

Stjórn samtakanna ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi samtakanna og ber ábyrgð á fjárreiðum þeirra. Hún skuldbindur samtökin gagnvart öðrum aðila. Gerðir stjórnarinnar skulu jafnan bókfærðar.

Stjórnin getur tekið ákvarðanir þegar að minnsta kosti fimm aðalstjórnarmenn eru mættir. Aðal- og varamönnum skal sent endurrit fundargerða eftir hvern stjórnarfund.

Stjórn samtakanna skal halda að minnsta kosti fimm stjórnarfundi á ári hverju.
Varamenn skulu boðaðir á alla stjórnarfundi.

Formaður félagsins má aldrei sitja lengur en heil þrjú kjörtímabil samfellt.

 

Hægt er að senda tillögur til lagabreytinga og framboðsyfirlýsingu á netfangið the@adhd.is