Á mynd, hluti nýkjörinnar stjórnar. Frá vinstri til hægri: Vilhjálmur Hjálmarsson, Gyða Haraldsdóttir, Heiða Vigdís Sigfúsdóttir, Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, Bóas Valdórsson, Tryggvi Axelsson.
Aðalfundur ADHD samtakanna fór fram fimmtudaginn 6. mars 2025 í húsakynnum félagsins að Háaleitisbraut 13. Á fundinum var kjörið í stjórn samkvæmt lögum samtakanna, ársreikningar vegna 2024 afgreiddir.
Formaður ADHD samtakanna, Vilhjálmur Hjálmarsson gerði grein fyrir skýrslu stjórnar fyrir árið 2024, Hrannar Björn Arnarsson gerði grein fyrir ársreiknings félagsins.
Ársskýrslu og ársreikninga vegna ársins 2024 má nálgast á hér - ársskýrslur og reikningar ADHD samtakanna.
Starfsemi ársins hefur einkennst af lyfjaumræðu, baráttu fyrir réttindum fólks með ADHD í flugi og umferðinni, óviðunandi þjónustu hins opinbera við greiningar og meðferð vegna ADHD, þjónustu geðlækna- og sálfræðinga og annarra atriða er snerta réttindi einstaklinga með ADHD, til að mynda rétt þeirra til náms. Vinnuhópur á vegum Heilbrigðisráðherra skilaði af sér Grænbók um greiningar- og meðhöndlun ADHD en að mati ADHD samtakanna voru verulegir annmarkar á vinnu Grænbókarnefndarinnar og hún í raun, ónothæf sem grundvöllur frekari stefnumörkunar í málaflokknum, í óbreyttri mynd.
Áframhaldandi vöxtur einkenndi starfsemi samtakanna á árinu. Félagsfólki fjölgaði úr 4086 í 4470 eða um 9%. Ein skráning gildir fyrir hverja fjölskyldu en bak við þá tölu reynast yfirleitt mun fleiri þar sem ekki er óalgengt að aðrir fjölskyldumeðlimir glími einnig við röskunina. Samþykkt var að árgjald ADHD samtakanna fyrir næsta starfsár yrði óbreytt, kr. 3950,-. Árgjaldið mun áfram veita umtalsverðan afslátt af námskeiðum samtakanna, af vörum í vefverslun. Í samræmi við lög samtakanna var kjörið í helming stjórnarsæta, sæti formanns, varaformanns eins sætis í aðalstjórn og eitt sæti varamanns, til ársins 2027, en stjórn ADHD samtakanna skipa sjö aðalmenn og tveir til vara.
Aðalfundur ADHD samtakanna samþykkti einróma ályktun um alvarlegar stöðu í málefnum fólks með ADHD á Íslandi. Ályktun aðalfundar er hægt að nálgast hér.
Stjórnin er nú þannig skipuð:
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður (kosin til aðalfundar 2027)
Bóas Valdórsson, varaformaður (kosinn til aðalfundar 2027)
Elín Hrefna Garðarsdóttir, gjaldkeri (kosin til aðalfundar 2026)
Tryggvi Axelsson, ritari (kosin til aðalfundar 2026)
Sigrún Jónsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2026)
Gyða Haraldsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2027)
Ása Ingibergsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2026)
Varamenn:
Heiða Vigdís Sigfúsdóttir, (kosin til aðalfundar 2027)
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, (kosin til aðalfundar 2026)
Nefang stjórnar er: stjorn@adhd.is