ADHD - markmið, skipulag og tímastjórnun

Fræðslufundur um markmið, skipulag og tímastjórnun

 Lífið getur oft verið yfirþyrmandi í amstri dagsins þegar við þurfum að sinna ólíkum verkefnum, hlutverkum, vinnu og fjölskyldu, á sama tíma getum við verið að fá ótal hugmyndir að verkefnum og markmiðum sem oft getur verið áskorun að koma í framkvæmd. Í þessu erindi fjallar Þóra Hrund Guðbrandsdóttir um hvernig hægt er að móta raunhæf markmið, byggja upp skipulag sem virkar í raunveruleikanum og þróa einfaldar en áhrifaríkar aðferðir til tímastjórnunar.

Farið verður yfir:
Hvernig á að setja markmið sem eru bæði raunhæf og hvetjandi
Leiðir til að skipuleggja daginn án þess að festast í endalausum listum
Hagnýt verkfæri og aðferðir til að halda fókus og koma hlutunum í verk
Hvernig á að forðast frestun og nýta orku sína á sem bestan hátt

Erindið er hannað með þarfir ADHD-hugans í huga og byggir á aðferðum sem eru sveigjanlegar, skapandi og auðvelt að innleiða í daglegt líf. Hvort sem þú ert að vinna að persónulegum markmiðum, námi eða starfi, færðu hér verkfæri sem hjálpa þér að ná árangri.

Hentar einstaklingum með ADHD, foreldrum, fagfólki og öllum sem vilja skilja betur hvernig aðferðir í skipulagi og tímastjórnun geta virkað á fjölbreyttan hátt.

Þóra Hrund Guðbrandsdóttir er mark- og teymisþjálfi og eigandi Munum sem hefur síðustu 10 ár gefið út dagbækur sem hannaðar eru með það að leiðarljósi að auðvelda markmiðasetningu, tímastjórnun og efla jákvæða og þakkláta hugsun. Hún hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um hvernig megi nýta ýmis tól til að skapa sér skýra framtíðarsýn, setja sér markmið og ásetning til að upplifa meiri lífsgleði, skapa það líf sem þig langar í, í meira jafnvægi og í minni streitu.

Að setja sér markmið er mikilvægt til að ná fram því sem við óskum okkur í lífinu. Hvort sem það tengist góðri heilsu, atvinnu, að koma verkefnum og hugmyndum í framkvæmd eða að láta drauma okkar verða að veruleika. Markmið eru ákveðin vegvísir að draumum okkar og því sem þig langar að gera, upplifa, eiga eða verða.

Fræðslufundurinn verður eingöngu aðgengilegur í streymi fyrir félagsfólk á Facebook síðunni ADHD í beinni.

 Árgjald ADHD samtakanna er 3950 kr og hægt er að ganga í samtökin hér: Ganga í ADHD samtökin | ADHD samtökin 

Facebook viðburður