Háskólinn í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík býður upp á námskeið er nefnist „Sjálfstraust í námi” ásamt bæklingum og upptökum á vef er varða árangursríkar aðferðir í námi, tímastjórnun og markmiðasetningu, nýtingu styrkleika, námskvíða o.fl.

Námsráðgjöf fer inn í allar deildir skólans með fræðslu, en þó ekki nýlega. Auk þess hefur tölvunarfræðideild hugað sérstaklega að nemendum með taugafjölbreytileika meðal annars varðandi kennsluglærur.

Nemendum stendur til boða að ræða við sálfræðing og/eða námsráðgjafa. Náms- og starfsráðgjöf býður upp á persónulega ráðgjöf og/eða eftirfylgni fyrir nemendur með fötlun eða sértæka námsörðugleika. Einnig getur náms- og starfsráðgjafi haft milligöngu um myndun minni stuðningshópa.

Háskólinn í Reykjavík leitast við, af fremsta megni, að taka á móti öllum nemendum og auglýsa sérúrræði sem standa nemendum til boða. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða aðstoð og stuðning.

Mismunandi námsaðferðir eru notaðar í HR og tillit tekið til einstaklinga með sérþarfir, eins og mögulegt er innan ramma reglna. Fylgst er með framförum nemenda með ADHD sem nýta sér úrræðin sem í boði eru. Upplýsingar er fram koma í viðtölum við nemendur eru trúnaðargögn og skráð hjá ráðgjöfum eða sálfræðingum skólans.

Háskólinn í Reykjavík býður þar að auki upp á persónulegan stuðning og viðtöl ásamt sérstökum próftækninámskeiðum.