Háskólinn á Bifröst hefur boðið upp á örnámskeið á Teams í náms- og lestrartækni, glósutækni, skipulagi o.fl. ásamt stuðningshópum fyrir nemendur sem eru að skrifa BA/Bs og meistaraverkefni. Ekki hefur verið boðið upp á sérstök námskeið fyrir nemendur með ADHD önnur eru þau sem standa öllum nemendum skólans til boða og sama á við um úrræðin hér að ofan.
Þvert á deildir standa nemendum með greiningu á hvers kyns fötlun, taugafjölbreytileika eða langvarandi veikindum til boða lengri próftími. Almennt er hann 25% lengri en gengur og gerist en miðað er þá við 15 mín. aukalega á hverja klukkustund í prófi. Auk þess sem kennurum er uppálagt að hafa í huga að veita nemendum rúman tíma í hlutaprófum. Nemendaráðgjöf hefur ekki staðið fyrir fræðslu fyrir kennara varðandi nemendur með ADHD.
Allir kennarar eru mjög meðvitaðir um að veita nemendum persónulega og góða þjónustu og koma til móts við sérþarfir. Kennarar veita náms- og starfsráðgjafa upplýsingar, á miðri lotu, um virkni nemenda og láta vita ef nemandi er vanvirkur í námskeiði. Í kjölfarið hafa náms- og starfsráðgjafar samband við nemandann, hann hvattur áfram og fundin sameiginleg lausn til að hann geti lokið námskeiðinu.
Námsráðgjöf Háskólans á Bifröst telur að kennsluaðferðir skólans henti vel nemendum með ADHD þar sem sérstaða þeirra er sú að skólinn kennir langflest námskeið yfir styttri tíma. Nemendur eiga þar af leiðandi auðveldara með að einbeita sér að færri námskeiðum yfir styttri tíma. Auk þess fara fyrirlestrar fram í myndbandsupptökum sem nemendur geta nálgast á kennslukerfi þeirra. Hægt er að stoppa fyrirlesturinn og glósa, eða horfa á hann eins oft og þurfa þykir.
Fylgst er með námsframvindu allra nemenda skólans sem eiga við sértæka námserfiðleika að stríða.