Háskólinn á Akureyri

Nemendaráðgjöf Háskólans á Akureyri býður nemendum upp á stuðningsúrræði hjá sálfræðingi og náms- og starfsráðgjafa. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl, námskeið og fræðsluerindi. HA er þar að auki með síðu á Canvas sem ber heitið ,,Námstækni HA” og er öllum opin sem sækja nám í HA. Prófkvíðanámskeið og námskeið í almennri námstækni er í boði ásamt námskeiðum um hvernig einstaklingar geta sameinað háskólanám og fjölskyldulíf. Aðgengilegt í kennslukerfum HA er einnig að finna námskeið í próftökutækni, frestun, markmiðasetningu og tímastjórnun ásamt því að boðið er upp á námskeið um helstu þætti í námstækni og góð vinnubrögð, almenna líðan og geðheilbrigði.

Ekki hefur nemendaráðgjöfin haldið formlega fræðslu um ADHD en hins vegar fjallað reglulega um þjónustu sína, helstu ástæðu fyrir aðsókn eftir þjónustunni og samskipti nemenda og starfsfólks skólans. Ef nemi óskar eftir að ráðgjafi eða sálfræðingur tali sínu máli innan deildar s.s. vegna ákveðinna málefna, er það gert í samstarfi við nema, t.d. við að útskýra hamlanir og aðlaganir í námi.

Nemendur með ADHD geta óskað eftir aðstoð nemendaráðgjafar við m.a. að halda utan um skipulag námsins, fá yfirsýn og/eða stuðning við að efla færni, læra ýmis bjargráð sem stuðning við námið ásamt streituminnkandi aðferðum.

Fylgst er með framförum nemenda með ADHD sem nýta sér einstaklingsviðtöl og úrræði sem í boði eru. HA býður nemendum upp á persónulega ráðgjöf sé þess óskað. Nemendaráðgjöf skipuleggur og hefur umsjón með slíkri ráðgjöf sem getur bæði farið fram hjá náms- og starfsráðgjafa eða sálfræðingi skólans.

Háskólinn á Akureyri er að vinna að hugmynd um að halda vinnustofur/fræðslu á næsta misseri sem sérstaklega er ætluð háskólanemum með ADHD og yrði samstarfsverkefni sálfræðings og náms- og starfsráðgjafa. Ofangreind fræðsla væri hluti af stuðningi við nemendur með ADHD í háskólanámi.