Verklagsreglur Háskóla Íslands um veitingu úrræða í námi má finna á heimasíðu skólans. Reglurnar eru þó í endurskoðun.
Markmið skólans er að koma til móts við hvern og einn nemanda eins og kostur er án þess að dregið sé úr námskröfum og/eða hæfniviðmiðum námskeiða.
Sem dæmi um úrræði í námi fyrir nemendur með ADHD er lenging á próftíma, próftaka í fámennri prófstofu, stuðningsviðtöl við ráðgjafa og í kjölfarið er skoðað á einstaklingsgrundvelli hvort þörf sé á frekari úrræðum. Nemendum skólans er heimilt að nota eyrnatappa (Loop Earplugs og Calmer) og peltora án sérstaks samnings. Ekki eru í boði sérstök námskeið fyrir nemendur með ADHD en allir nemendur hafa aðgang að hverju og einu námskeiði sem Nemendaráðgjöf HÍ býður uppá, til að mynda námstækninámskeið, vinnustofur í gerð lokaverkefna, sjálfstyrkingarnámskeið og HAM (hugræn atferlismeðferð) námskeið. Regluleg stuðningsviðtöl í boði þar sem nemendur fá aðstoð við námstækni, skipulag, próftækni og fleira. Námsráðgjöf hefur ekki markvisst eftirlit með námsárangri/framförum einstaka nemenda við skólann.
Nemandi sem gert hefur samning við skólann um úrræði í námi getur hvenær sem er á námsferlinum óskað eftir endurskoðun á samningi sínum með tilliti til úrræða. Nemendaráðgjöf HÍ býður kennurum og öðru starfsfólki HÍ upp á kynningar á þörfum og þjónustu við nemendur sem þurfa á sértækum úrræðum að halda í námi, sé þess óskað.