Grein eftir Ásgeir Ingvarsson blaðamann sem birtist á Finnur.is fimmtudaginn 7. apríl 2011.
Fimmtán ára unglingur, Atli Viðar Gunnarsson, snéri lífi sínu við með í vinnu á
dekkjaverkstæði. Hann stefnir á að læra heilan helling.
„Ég lít sennilega út fyrir að vera yngri en fimmtán ára og mjög margir verða hissa þegar þeir
koma hingað með bílinn sinn og sjá mig. Unga fólkið, sem er á aldrinum milli tvítugs og
þrítugs, tekur þessu vel en hinir eldri eru meira hikandi og vilja sumir helst ekki að ég sé að
vinna í bílnum þeirra." Þannig segir Atli Viðar Gunnarsson frá því þegar viðskiptavinir
Dekkverks í Garðabæ finna þar fyrir fimmtán ára lágvaxinn gutta, með feiti á fingrum og
hjólbarða undir handleggnum. Unglingur með metnað. Atli er líflegur ungur maður. Á honum
kjaftar hver tuska og hann hefur skoðanir á málum þrátt fyrir að vera rétt skriðinn yfir
fermingaraldur. Einhvers staðar hefði Atli verið flokkaður sem „vandræðaunglingur" en
virkar samt eiturskarpur. Langar að læra japönsku, er heillaður af japönskum teiknimyndum
og vill helst verða allt í senn; kokkur, nuddari og vélvirki. Atli lenti utanveltu í skólakerfinu í
Hafnarfirði og varð úr því raunasaga. „Ég mátti í raun ekki stunda skóla lengur því enginn af
grunnskólum bæjarins vildi taka við mér. Margt spilaði þar saman; kvíðaröskun, ofvirkni,
athyglisbrestur og einelti, og staðan var orðin þannig að ég hreinlega hataði kennara og
skólaumhverfið. Ég hékk í sjoppum alla daga, var kominn í slæman félagsskap og frá því ég
var 12 ára gamall bjó ég nánast í aftursæti á lögreglubíl." Góðir dagar í dekkjunum
Jafnvægisstilltur á verkstæði Þegar öll úrræði höfðu verið reynd, varð úr að Hafnarfjarðarbær
bjó til sérstakt kennslukerfi til að mæta þörfum Atla. „Tveir kennarar voru ráðnir sérstaklega
vegna þessa verkefnis og til að leiðbeina mér á morgnana í húsi sem bærinn á og stóð ónotað.
Seinni helming dagsins fæ ég síðan að vinna og ég fékk að ráða því hvert ég færi til starfa.
Fyrir vinnuna fæ ég svo nokkurskonar vinnuskólalaun." Atli þurfti ekki að hugsa sig lengi um
þegar hann var beðinn að velja sér vinnustað og kaus að starfa á dekkjaverkstæði. Eldri bróðir
hans starfar þar fyrir og raunar er Atli þriðji bróðirinn í fjölskyldunni sem spreytir sig á
dekkjaskiptingum. Atli hefur sveigjanlegan vinnutíma, svo fremi hann skili fjórum tímum á
dag á verkstæðinu. Yfirleitt mætir hann um klukkan þrjú á daginn og fer heim um kvöldmat.
Líf Atla hefur tekið algjörum stakkaskiptum í þessu nýja umhverfi.„Mér finnst þetta mjög
skemmtileg vinna og þetta umhverfi á margfalt betur við mig en skólinn. Ég er orðinn hluti af
hópnum og hef sömu skyldur og vinn sömu verk og allir aðrir. Það eina sem ég á eftir að læra
er að svara í símann og selja dekk. Þetta er einfaldlega skemmtilegur vinnustaður, alltaf er
eitthvað nýtt að gerast og varla líður sá dagur að ekki gerist eitthvað eða eitthvað er sagt sem
fær okkur alla til að hlæja." Atli telur það hafa sitt að segja að vinnan tekur á líkamlega, en
það hjálpar honum að hafa stjórn á ofvirkni og athyglisbresti. Þá segir hann líka muna um að
vera í umhverfi þar sem komið er fram við hann eins og fullorðinn mann, með þeirri ábyrgð
og skyldum sem því fylgja. Breytingarnar í lífi Atla eftir að hann fór að vinna á verkstæðinu
eru með ólíkindum. „Ég er alveg hættur í rugli. Ég þekki svo sem enn fólkið sem ég hafði
kynnst hér áður en ég er hér um bil hættur að hafa við það samband og vinahópurinn núna er
orðinn öðruvísi. Er í dag mest með tveimur öðrum strákum sem komu í þetta sama
prógramm," segir Atli, en árangur hans varð til þess að fleiri unglingar, sem ekki hafði tekist
að fóta sig, hafa fengið sama úrræði og standa sig líka prýðilega. Það má segja að Atli hafi
losnað við alla ósiðna á einu bretti, nema hvað hann segist enn stelast til að fá sér sígarettu
endrum og sinnum. Hann stefnir samt á að hætta. „Ég bara skil ekki hvað fólk sér við að sitja
heima allan daginn, reykjandi hass," segir hann. Ólíkt mörgum unglingum er Atli með skýra
framtíðarsýn og mikinn metnað. Eins og fyrr sagði langar hann að skella sér í vélvirkjanám,
jafnvel þótt hann viti fullvel að eflaust eigi hann eftir að þurfa að hafa mikið fyrir
stærðfræðifögunum. „Kannski ég fari samt fyrst í kokkinn og læri nuddið. Nudd er
skemmtilegt starf og mér finnst fátt ánægjulegra en að elda ofan í sjálfan mig og aðra. Eftir
vélvirkjanám þarf ég ekki að bæta miklu við til að fá flugvirkjaréttindi, og ég hugsa mér að
spennandi væri að fást við hvað sem er tengt flugvélum."
Birt með góðfúslegu leyfi www.finnur.is