Úr fyrirlestri Helgu Sigurjónsdóttur 2. okt. 1991
Helga er námsráðgjafi og sér um fornámsdeild í Menntaskólanum í Kópavogi.
Framhaldsskóli fyrir alla er að mati Helgu slagorð, varla meira, og það sem verra er að
það gefur falskar vonir. Í upphafi náms verður að byggja grunninn. Erfitt getur verið að fá
reynda kennara til að kenna þeim sem eru hæggengir í námi. Eftir því sem nemandi er
verr settur því hæfari kennara þarf hann til að ná árangri.
Framhaldsskólarnir eru víðir inngöngu en þröngir útgöngu. Bilið milli grunnskóla og
framhaldsskóla er óbrúað.
Mjög mörg börn detta þar á milli og flosna upp. Framhaldsskólarnir eru allir með sömu
grunnáfanga, hvort sem um verklegar eða bóklegar námsbrautir er að ræða.
Um það bil 30% allra nemenda ráða ekki við að fara í framhaldsskóla beint úr
grunnskóla, og er þá oft að skólarnir reyna að velja úr. Þeir sem síst hafa staðið sig
komast jafnvel hvergi að, útlitið er ekki bjart hjá þeim hópi.
Til þess að vera sæmilega undir nám í framhaldsskóla búinn þurfa nemendur að hafa
a.m.k meðaleinkunina 7. Þeir sem ekki standa nógu vel að vígi þegar þangað kemur
gefast fljótlega upp undan álaginu. Menntastofnanir eiga að vera sniðnar eftir þörfum
nem-endanna en ekki öfugt þess vegna verður að brúa bilið á milli grunnskóla og
framhaldsskóla.
Um það bil 3-5% allra nemenda í grunnskóla eiga við lestrar- og/eða skriftarerfiðleika
að etja.
Flestir nemendur í fornámi í M.K. eru með sértæka námserfiðleika, þar af eiga um 50%
við lestrar- og/eða skriftarvandamál að stríða. Þegar kemur að stúdentsprófi eru
erfiðleikarnir oft gengnir yfir hjá þeim sem enn eru í námi.
Mikil aðsókn er í fornám M.K. víða að af landinu.
Nemendur verða að vera með í ráðum þegar fornám er valið. Þeim sem falla á
grunnskólaprófi stendur til boða viðtal við námsráðgjafa þar sem þeim er gerð grein fyrir
því hvað felst í fornámi en oft eru aðilar búnir að missa trúna á námsgetu einstaklinganna
þegar hingað er komið, fyrst kennari, svo foreldrarnir og loks nemendurnir sjálfir.
Í M.K. er boðið upp á greiningu hjá sálfræðingi, sem felst í almennu greindarprófi og
taugasálfræðilegu prófi, en fyrir það þurfa nemendur að greiða. Þegar þessu er lokið þá á
að vera ljóst hvað hægt er að gera. Ennþá hefur enginn þeirra sem leitað hafa til fornáms
M.K. verið mældir undir meðalgreind. Þessir nemendur þurfa á mikilli hvatningu að
halda.
Það verður greinileg breyting hjá þeim nemendum sem hefja nám í fornámi M.K. Þeir
verða að standa undir kröfum skólans um heimavinnu, hún getur tekið a.m.k. 3-4 tíma á
dag. Haustpróf eru í lestri og stafsetningu og nemendum með lestrarerfiðleika er gert að
lesa upphátt í 15 mínútur daglega, aldrei má sleppa úr degi, samkvæmt reglum frá
skólanum.
Í fornámi M.K. er gengið eftir því að nemendur skili heimavinnu. Sýni nemandi ekki
vilja til að taka á sínum málum er honum gerð grein fyrir stöðu sinni og ef hann tekur sig
ekki á er honum vísað úr skóla.
Alls hafa um 200 nemendur verið í fornámi M.K. frá upphafi og nú eru þeir 27, í
tveimur bekkjardeildum. Nemendurnir þreyttu allir leshraðapróf og í þeim hóp sem nú
eru í fornáminu voru aðeins 6 sem náðu einkunn sem gaf til kynna að þeir væru
hraðlæsir. Lestrarhraði upp á 6-7 dugar ekki til að lesa allt það sem þarf að lesa í
framhaldsskóla. Þeir nemendur sem ekki hafa náð góðu valdi á lestri þurfa því langan
tíma og mikla þjálfun áður en þeir geta spjarað sig í almennum framhaldsskóla.
Sjálfstraust einstak-lingsins skiptir sköpum fyrir árangur í námi. Hann má aldrei gefast
upp og aldrei slaka á.
Sérkennsla á að koma sem viðbót á skólatímann en ekki í staðinn fyrir ákveðnar
kennslustundir. Aðalatriði í öllu námi er að kennslan sé markviss.
Hljóðbækur standa til boða fyrir þá sem á þurfa að halda. Í framhalds-skólum er
möguleiki að taka munnleg próf en það þarf að vinna að því í tíma og gildar ástæður
verða að liggja að baki. Fjöldi nemenda læra fyrstu vinnubrögð í námi í
framhaldsskólum.
Anna Lárusdóttir, Elfa Björk Benediktsdóttir og Olga Björg Jónsdóttir tóku saman.