Úr fyrirlestri Sólveigar Ásgrímsdóttur og Rósu Steinsdóttur á fundi 25. maí 1992
Sólveig er sálfræðingur og Rósa er myndþerapisti.
Báðar vinna þær við barnageðdeild Landsspítalans við Dalbraut.
Sólveig hóf fyrirlesturinn. Hún ítrekaði að hún væri að fjalla um ofvirk börn en ekki
misþroska, þó að margt það sama eigi við um báða hópana. Misþroska börn þurfa ekki að
vera ofvirk en geta verið það. Ofvirkni eða atferlisbresti með ofvirkni eins og þetta ástand
er oft kallað, fylgja oft töluverð tilfinningaleg einkenni. Athyglin hverfur við minnstu
truflun og börnin eru oftast hvatvísari en önnur börn. Vandamál barns eru því af þrenns
konar toga spunnin, þ.e. athyglisbrestur, hvatvísi og ofvirkni.
Sólveig sagði frá rannsókn þar sem í ljós kom að 44% ofvirkra barna hafa einhverja eina
aðra tilfinningalega eða geðræna truflun með ofvirkninni. 32% hafa tvær aðrar og 11%
þrjár eða fleiri. Þetta er mun hærra hlutfall en hjá öðrum börnum t.d. börnum með
námsörðugleika. Sólveig talaði um að þarna væri marktækur munur á. Börn sem hafa
athyglisbrest með ofvirkni hafa oftar einkenni um kvíða, þunglyndi og lítið sjálfstraust en
önnur börn. Einnig kvarta þau oftar um höfuðverk eða magaverk, og þau virðast einnig
oftar fá kvef, eyrnabólgur og ofnæmi en „venjuleg“ börn.
Stundum koma fram einkenni sem eru mjög alvarleg. Ofvirk börn virðast vera í meiri
hættu hvað varðar það að taka upp andfélagslegt atferli, s.s.eins og að ljúga og stela. Og
þegar fram í sækir virðist hættan á því að þessi börn misnoti áfengi og lyf meiri en meðal
„venjulegra“ barna.
Einangrun og vinaleysi er afar algengt vandamál ofvirku barnanna. Ástæðan er ekki
augljós en líklegt þykir að önnur börn þoli illa fyrirgang og hávaða ofvirka barnsins.
Ofvirk börn trufla oft leiki hinna barnanna, ryðjast inn í þá og hlýða illa reglunum.
Hvatvísi þeirra fær þau stundum til að gera eitthvað sem önnur börn hvorki þora né vilja
gera.
Ofvirku börnin lesa oftast illa úr merkjamáli í samskiptum við aðra, þau virðast oft ekki
skynja slík smáatriði, ef til vill vegna hvatvísinnar. Þau eiga oft erfitt með að setja sig í
spor annara og skilja að framkoma þeirra sjálfra kallar fram viðbrögð annarra. Því upplifa
þau sig oft sem fórnarlömb sem öðrum er illa við. Þau segja oft „hann byrjaði, ég gerði
ekkert" og þau virðast upplifa aðstæðurnar þannig, en ekki vera bara að skrökva.
Sólveig sagði okkur frá tilraun sem gerð var þar sem barnahóp var sýnt myndband. Þar
var ofvirkur einstaklingur sem truflaði kennslu í heilum bekk, kennarinn stöðvaði hann.
Eftir sýningu myndarinnar voru börnin spurð hvað þeim þætti um samskipti nemanda og
kennara í myndinni. Ofvirka barnið í hópnum taldi greinilegt að þessum kennara hefði
verið illa við nemandann, hinum börnunum fannst þarna ekkert athugavert hafa átt sér
stað í samskiptum nemanda og kennara
Ofvirk börn eiga mun erfiðara með að bíða og mótlætaþol þeirra er mun minna en
annarra barna. Einnig er algengt að ofvirk börn hafi lélega sjálfsmynd og mörg þeirra
telja að þau séu einskis nýt, heimsk og að engum líki við þau.
Á heimili eru ofvirk börn oft mikið gagnrýnd bæði af foreldrum og systkinum. Þau
reyna mjög á þolrif foreldra og einkenni þeirra valda ákveðnum viðbrögðum hjá
foreldrum sem eru óholl fyrir sjálfsmynd barnanna. Þau gera foreldra óörugga, kvíðin og
hegðun þeirra veldur foreldrunum oft sektarkennd. Því búa þau oft við mikla gagnrýni
samfara ofverndun og oft ósamkvæmni bæði hjá öðru hvoru foreldra, sem vegna þess hve
oft þarf að skamma barnið, leyfa stundum eitthvað sem þau voru áður búin að banna; en
einnig milli foreldra. Faðinn verður oft harður og strangur, móðirin lin og eftirgefanleg.
Foreldrar leiðast oft út í öfgar, því hvort um sig reynir að bæta hitt upp. Þetta er erfitt fyrir
barnið því að hegðun foreldranna veldur því að barnið upplifir óöryggi.
Oft fylgja ofvirkninni námsörðugleikar. Ofvirka barnið veldur oft mikilli truflun í
bekknum og reynir mjög á þolrif kennarans. Það lendir oft í því að ógna kennaranum
verulega, að því leyti að honum finnst hann ekki starfi sínu vaxinn, að hann ráði ekki við
barnið og jafnvel allan bekkinn. Því geta samskipti kennarans og ofvirka barnsins orðið
mjög erfið.
Stundum geta komið fram hjá barninu einkenni sem kennari telur sjúkleg og hræða
hann. Eitthvað það erfiðasta sem ofvirka barnið þarf að glíma við er þegar hvorki
foreldrar né kennarar ná að skilja vanda þess og verða eins óöruggir og oft er raunin. Þá
er hætta á að óöryggi barnsins verði það mikið að fleiri alvarleg einkenni bætist við.
10-12 ára einstaklingi getur því fundist hann vera orsök allra vandamála bæði heima og í
skólanum.
Sum einkenni geta komið fram í skóla en ekki á heimilinu og öfugt. Því getur verið að
foreldrar þekki ekki það sem kennari lýsir og öfugt. Þó eru erfið-leikarnir í skólanum
oftast meiri vegna þeirra krafna sem skólinn gerir.
Til að fyrirbyggja þessi tilfinningalegu vandræði er mikilvægt að:
a) Fræða foreldra og kennara um vandamál barnsins þannig að þeir viti hvaða kröfur má
gera til þess.
b) Þeir sem annast barnið séu á verði og hrósi barninu fyrir það sem vel gengur, oftast má
hrósa börnunum mun meira en gert er.
c) Allir sem annast börnin átti sig á því að vandamál barnsins stafa af líkamlegum
ástæðum en ekki af óþekkt og að þetta er ekki spurning um óhæfa foreldra eða kennara.
Til að hjálpa börnunum verðum við að breyta viðhorfum okkar gagnvart þeim og þeirra
krafna sem við gerum til þeirra.
Rósa Steinsdóttir talaði um myndmeðferð á dreng sem var greindur ofvirkur og
misþroska, greindarvísitala hans mældist 124. Ferill hans var nokkuð eðlilegur fram til 5
ára aldurs þó að hópleikir væru honum alltaf erfiðir. Þegar fór að reyna á samskipti við
aðra, byrjuðu erfiðleikarnir við einbeitingu að hrjá hann. Þessi einstaklingur álítur
umhverfið vanmeta sig og finnst það óréttlátt, hann hefur sterka höfnunartilfinningu.
Börn halda oft að þau megi aðeins bera jákvæðar tilfinningar til þeirra sem þeim þykir
vænt um. Þessi einstaklingur hefur aldrei getað tjáð tilfinningar sínar.
Rósa sýndi með myndum skjólstæðingsins hvernig meðferðin skilaði árangri. Þarna réði
hann ferðinni algerlega. Fyrstu 2 mánuðina þurftu myndirnar hans að vera sem ljótastar
(skrímsli, mannætur) sem endurspegla hans slæmu sjálfsmynd. Eftir eitt og hálft ár getur
hann loksins talað við Rósu í einlægni og nú fer hann einnig fram á að fá fleiri tíma sem
bendir til að hann finni sig öruggan í tímunum og að traust sé að byggjast upp.
Ofvirk börn eru ákaflega viðkvæm fyrir höfnun. Rósa var fjarverandi í einn tíma og það
upplifði hann sem höfnun sem börn óttast mest af öllu. Hann refsaði Rósu fyrir fjarveruna
með því að teikna ljóta mynd af henni og hafna henni þannig gegnum myndmálið.
Í dag hefur þessi drengur eignast vin og sýnir þetta skref tilfinningalega framför. Hann
telur að foreldrar hans hafi staðið með honum og hjálpað honum eins vel og þau gátu.
Í lok fundarins voru fjörugar umræður og voru þær stöllur spurðar spjörunum úr um
leiðir til aðstoða börnin.
Elfa Björk Benediktsdóttir og
Laufey Aðalsteinsdóttir tóku saman