Concensus yfirlýsingin

Janúar 2002

Við undirritaðir, hópur vísindamanna í fremstu röð á alþjóðavettvangi, lýsum yfir miklum áhyggjum okkar af röngum lýsingum á athyglisbresti með ofvirkni (Attention Deficit Hyperactivity Disorder - ADHD) sem birtast með reglulegu millibili í fjölmiðlum. Um er að ræða röskun sem við þekkjum allir mjög vel og margir okkar hafa helgað vandanum vísindalegar rannsóknir og jafnvel starfsferil okkar allan. Við óttumst að rangar frásagnir, sem lýsa athyglisbresti með ofvirkni sem þjóðsögu, blekkingum eða vægu vandamáli, geti leitt til þess að þúsundir þeirra sem glíma við röskunina leiti ekki meðferðar við henni. Almenningur fær þá einnig á tilfinninguna að ekki sé í raun um alvöruröskun að ræða heldur að hún sé vandi sem litlu skiptir.

Við höfum samið þessa sameiginlegu yfirlýsingu okkar um athyglisbrest með ofvirkni sem tilvísun til stöðu vísindalegra uppgötvana í tengslum við þessa röskun, að hún sé ótvíræð og að hún hafi alvarleg áhrif á líf þeirra sem greinast með hana, eins og best er vitað í janúar 2002.

Stundum er litið á umfjöllun um röskunina eins og íþróttaviðburð þar sem keppendur standa nokkuð jafnt að vígi hvað þekkingu varðar. Skoðanir nokkurra fræðimanna, sem ekki eru sérfræðingar á þessu sviði, um að athyglisbrestur með ofvirkni sé ekki til eru settar fram sem jafngildar almennum sjónarmiðum vísindanna um að ástandið sé til, rétt eins og báðar skoðanir væru studdar jafnsterkum rökum. Þannig tilraunir til að halda hlutleysi gefa almenningi til kynna að vísindaheimurinn sé mjög á báðum áttum um hvort athyglisbrestur með ofvirkni sé réttmætt læknisfræðilegt ástand. Í raun ríkir þó alls enginn ágreiningur um það, að minnsta kosti ekki meiri ágreiningur en sá hvort reykingar valdi krabbameini eða veira valdi HIV/eyðni, svo dæmi séu tekin.

Bandaríski landlæknirinn, Læknasamtök Bandaríkjanna (AMA), Samtök bandarískra geðlækna, Bandaríska akademían um geðlækningar barna og ungmenna (AACAP), Samtök bandaríska sálfræðinga og Bandaríska barnalækningaakademían (AAP) eru meðal þeirra sem viðurkenna athyglisbrest með ofvirkni sem réttmæta röskun. Sumar þessara stofnana og samtaka hafa gefið út viðmið um mat á og meðferð við röskuninni fyrir félaga sína en þetta er fyrsta sameiginlega yfirlýsing sjálfstæðs hóps vísindamanna í fremstu röð um stöðu röskunarinnar. Ekki er deilt um tilvist hennar af neinum þeirra vísindamanna sem hafa varið árum eða jafnvel starfsferli sínum öllum í rannsóknir á þessari röskun.

Athyglisbrestur með ofvirkni og vísindin

Að okkar mati verður ekki lögð nógsamleg áhersla á að frá sjónarhóli vísindanna er sú hugmynd einfaldlega röng að athyglisbrestur með ofvirkni sé ekki til. Öll helstu samtök lækna og opinberar stofnanir á sviði heilbrigðismála viðurkenna athyglisbrest með ofvirkni sem réttmæta röskun. Sú vísindalega vitneskja sem til staðar er, bendir ótvírætt til þess.

Ýmsar nálganir hafa verið reyndar til að fá staðfest hvort ákveðið ástand uppfylli það að geta kallast réttmæt læknisfræðileg eða geðræn röskun. Það hefur reynst mjög vel að krefjast þess að fyrir hendi séu vísindalega staðfestar sannanir fyrir því að þeir sem glíma við tiltekið ástand glími við alvarlegan skort eða vöntun á líkamlegu eða andlegu skipulagi meðvitaðra og ómeðvitaðra viðbragða sem allir menn eiga sameiginlegt. Með því er átt við að gera eigi ráð fyrir að allir menn, burtséð frá menningu, eigi að hafa þróað með sér ákveðna andlega færni.

Einnig verða að vera fyrir hendi óumdeildar vísindalegar sannanir fyrir því að sú alvarlega röskun valdi einstaklingnum tjóni. Það tjón fæst staðfest með því að safna gögnum um fjölgun dauðsfalla, dánartíðni eða truflanir á þeim meginþáttum daglegs lífs sem búist er við miðað við þroskastig. Með meginþáttum daglegs lífs er átt við þætti eins og menntun, félagsleg tengsl, fjölskyldulíf, sjálfstæði og það að vera sjálfbjarga, auk þeirra starfsgetu sem búast má við hjá öllum á sama þroskastigi.

Það er skjalfest af þeim stóra hópi vísindamanna sem undirritar þetta skjal, að meðal fremstu klínísku vísindamanna heims ríkir enginn vafi á því að athyglisbrestur með ofvirkni er alvarleg röskun hvað varðar andlega færni af ýmsu tagi, og að þær raskanir stefni flestum þeirra sem við þær glíma í alvarleg vandamál. Nýjustu rannsóknir gefa til kynna að brestir í stjórn á hegðun og einbeitingu séu lykilþættir þessarar röskunar. Sú staðreynd hefur verið staðfest í hundruðum vísindalegra kannana. Um það er engum blöðum að fletta að athyglisbrestur með ofvirkni hefur hamlandi áhrif á alla helstu þætti lífsins. Sem dæmi má nefna félagsleg tengsl, menntun, fjölskyldulíf, starfsfærni, það að vera sjálfbjarga og að geta farið að félagslegum reglum, viðmiðum og lögum. Gögn benda einnig til þess að einstaklingum með athyglisbrest með ofvirkni sé hættara en öðrum við líkamlegum meiðslum og eitrunum af slysni. Þetta er ástæða þess að engin fagleg stofnun á sviði læknisfræði, sálfræði eða vísinda dregur í efa að athyglisbrestur með ofvirkni sé réttmæt röskun.

Helstu sálfræðilegu raskanir einstaklinga með athyglisbrest með ofvirkni hafa verið rannsakaðar á ýmsan hátt í fjölda vísindalegra rannsókna. Þær sýna fram á tengsl við sérstök heilasvæði (ennisblaðið, tengingar þess við djúphnoðið og samskipti þeirra við miðlæga þætti litla heila). Flestar taugafræðilegar rannsóknir hafa sýnt að sem hópur hefur fólk með athyglisbrest með ofvirkni minni rafvirkni í heila og sýnir minni viðbrögð við örvun á einu eða fleiri þessara heilasvæða en samanburðarhópur. Rannsóknir framkvæmdar með heilamyndatöku af ýmsu tagi sýna einnig að fólk með athyglisbrest með ofvirkni hefur einnig hlutfallslega minna svæði heilaefnis og minni efnahvarfavirkni í umræddu heilaefni en í samanburðarhópum.

Komið hefur í ljós í fjölda rannsókna á eineggja og tvíeggja tvíburum sem framkvæmdar hafa verið í ýmsum löndum (Bandaríkjunum, Stóra-Bretlandi, Noregi, Ástralíu og víðar), að geðrænar raskanir sem varða stjórn á hegðun og einbeitni eru einkum arfgengar. Yfirleitt er staðfest að arfgengi þessara einkenna er með því hæsta sem þekkist miðað við aðrar geðraskanir (70-95% einkennabrigða í rannsóknarhópnum). Nýlega hefur verið sýnt fram á af töluverðu öryggi að eitt ákveðið gen tengist þessari röskun og verið er að leita að fleirum af að minnsta kosti 12 mismunandi hópum vísindamanna um heim allan.

Margar rannsóknir á tvíburum sýna að fjölskylduumhverfi hefur mjög lítil áhrif til aðgreiningar á þessum einkennum. Með því er ekki átt við að umhverfi á heimili, færni foreldra, álag eða óeðlileg jafningjasamskipti hafi skipti litlu eða hafi engin áhrif á einstaklinga með þessa röskun, þessir þættir hafa vissulega áhrif. Arfgengar tilhneigingar koma fram í samspili við umhverfisþættina. Einnig má benda á að fólk með athyglisbrest með ofvirkni hefur oft tengdar raskanir eða vandamál sem greinilega tengjast oft félagslegu umhverfi þeirra. Með þessu er átt við að þær undirliggjandi geðrænu raskanir, sem í heild sinni kallast athyglisbrestur með ofvirkni, eru ekki eingöngu eða að mestu afleiðing þessara umhverfisþátta.

Þess vegna viðurkenna alþjóðlegir vísindamenn í fremstu röð, eins og til dæmis allir undirritaðir, stöðugt meira sannfærandi sannanir um taugafræðilegar og erfðafræðilegar forsendur þessarar röskunar. Þessi gögn staðfesta, ásamt ótal rannsóknum á þeim skaða sem röskunin veldur og mörg hundruð rannsóknum á árangri með lyfjameðferð, þörfina fyrir margþætta meðferð í mörgum en þó alls ekki öllum tilfellum. Sem dæmi má nefna lyfjameðferð ásamt aðstoð hvað varðar skólagöngu, fjölskyldu og aðra félagslega þætti. Þetta gengur þvert á þær algjörlega óvísindalegu skoðanir einstakra samfélagslegra gagnrýnenda í tímaritsgreinum að athyglisbrestur með ofvirkni sé blekking ein, að lyfjagjöf sé vafasöm og jafnvel ámælisverð, og að öll vandamál tengd athyglisbresti með ofvirkni séu einfaldlega afleiðing vandamála á heimilinu, of mikils sjónvarpsgláps eða tölvuleikja, mataræðis, vöntun á ást og umhyggju eða skorts á umburðarlyndi kennara eða skóla.

Athyglisbrestur með ofvirkni er ekki minniháttar röskun. Athyglisbrestur með ofvirkni getur valdið þeim sem hann hafa skelfilegum vandkvæðum. Klínískar eftirfylgnirannsóknir sýna að fólk sem þjáist af athyglisbresti með ofvirkni er miklu líklegra en aðrir til að falla frá námi (32-40%), mjög fáir ljúka framhaldsnámi (5-10%), þessi hópur á fáa eða enga vini (50-70%), stendur sig lakar en hann gæti gert í vinnu (70-80%), sýnir andfélagslega hegðun (40-50%) og notar frekar en aðrir tóbak eða ólöglega vímugjafa. Þar að auki eru meiri líkur á að unglingar með athyglisbrest með ofvirkni eignist börn(40%), fái kynsjúkdóma (16%), aki of hratt eða lendi oft í umferðarslysum, þjáist af þunglyndi (20-30%) eða verði fyrir persónuleikaröskun (18-25%) á fullorðinsárum en samanburðarhópur. Þeir stefna sér einnig í aðrar hættur eða missa að öðru leyti tök á lífi sínu á ótal aðra vegu.

Þrátt fyrir þessar alvarlegu afleiðingar gefa rannsóknir til kynna að innan við helmingur fólks með þessa röskun njóti meðferðar. Fjölmiðlar geta stuðlað að umtalsverðum úrbótum á þessari stöðu mála. Þeir geta til dæmis lýst athyglisbresti með ofvirkni og vísindalegum forsendum röskunarinnar á eins nákvæman og ábyrgan hátt og mögulegt er en forðast að miðla áróðri samfélagslegra gagnrýnenda og öfgafullra lækna sem eiga sér það markmið að sannfæra fólk um að ekki sé um að ræða réttmæta röskun. Það að birta frásagnir þess efnis að athyglisbrestur með ofvirkni sé ímynduð röskun og einungis deilur á milli nútímaútgáfunnar af Stikkilsberja-Finni og forráðamanna hans er álíka og að lýsa því yfir að jörðin sé flöt, að þyngdarlögmálið sé umdeilanlegt og að lotukerfi efnafræðinnar sé blekking ein. Ræða ber um athyglisbrest með ofvirkni í fjölmiðlum á eins raunhæfan og nákvæman hátt og um hann er fjallað í vísindaheiminum, sem réttmæta röskun sem hefur fjölbreytt og umtalsverð neikvæð áhrif á þá sem glíma við hana, án þess að hægt sé að varpa sökinni á þá sjálfa, foreldra þeirra og kennara.

Virðingarfyllst,

Undir þetta skrifa Russel A. Barkley Ph.D. og 70 aðrir helstu sérfræðingar á þessu sviði beggja megin Atlandshafsins