Um betri kennslu og samræmda þjónustu fyrir fjölskyldur misþroska barna

„Um betri kennslu og samræmda þjónustu fyrir fjölskyldur misþroska barna"

Á fræðslufundi foreldrafélagsins þann 10. nóvember sl. hélt Guðríður Adda
Ragnarsdóttir erindi sem hún nefndi „Um betri kennslu og samræmda þjónustu fyrir
fjölskyldur misþroska barna". Guðríður Adda er atferlisfræðingur og kennari að mennt og
hefur á undanförnum árum starfað við atferlis- og kennsluráðgjöf í skólum. Í því starfi
hefur hún sérstaklega einbeitt sér að málum barna sem reynast glíma við margháttaðan
vanda í aðlögun og námi. Í byrjun erindisins sagði hún frá ferð sinni og veru í
Morningside skólanum í Seattle í Bandaríkjunum, og ótrúlegri framför nemendanna þar
sem áður voru dæmdir meira eða minna ókennsluhæfir1.
Í erindinu undirstrikaði hún að það gæti skipt sköpum fyrir börnin hvaða aðferðum
kennarar beittu í kennslu og bekkjarstjórnun. Þar að auki reyndi á samræmda, þétta og
skilvirka stoðþjónustu við skólana með þeim nýju og breyttu kröfum sem nú eru gerðar til
skólastjórnenda og kennara. Taldi hún að með þverfaglegri lausnaleit foreldra, kennara
og sérfræðinga í stoðþjónustunni mætti koma í veg fyrir að mál barnanna flyttust lítið
unnin eða óunnin beint út í heilbrigðis- og félagskerfið. Hér væri um að ræða
grundvallaratriði í forvörnum sem væru góð fyrir alla, en gætu ráðið úrslitum fyrir
misþroska börn. Í þessu sambandi sagði hún frá fyrirkomulagi þeirrar teymisvinnu
heimilis, skóla og annarra sérfræðinga, sem hún stýrði í þeim tilvikum þegar mál
opnuðust til hennar sem vandi einstaka nemenda2.

Guðríður Adda fjallaði einnig um þær breytingar sem urðu á þjónustu sérfræðinga við
börn í grunnskólum með tilkomu nýrra fyrirmæla í reglugerðinni 1996 og því óþoli sem
sú breyting olli. En þau nýmæli eru að kveðið er á um að "kennslufræðileg og sálfræðileg
þekking skuli vera til staðar innan skólanna".

Hún telur sýnt að með fyrirmælunum í reglugerðinni hefði einnig þurft að fylgja:

• nánari leiðsögn til skóla og skólaþjónustu um þær nýju leiðir sem nú skyldu farnar í
vinnubrögðum,
• nánari upplýsingar um hvaða verkfærum skyldi beitt í stað hinna sem fyrir voru,
• ásamt boðum um símenntun fyrir þá sérfræðinga sem störfuðu í skólaþjónustu, þar sem
kennt væri á verkfærin og fólk þjálfað í að beita þeim og rata þær nýju leiðir sem lagðar
voru með reglugerðinni.
Í samantekt Guðríðar Öddu að lokum, lagði hún sérstaka áherslu á mikilvægi þess að
• auka ráðgjöf og stuðning við skólana og
• bæta kennsluaðferðir og stjórnunarhætti þeirra.
• þétta samvinnu heimila og skóla með virkri þátttöku foreldra,
• endurskoða og samræma vinnuskilgreiningu fyrir sérfræðinga skólaþjónustunnar,
• samræma vinnuferli milli einstakra sviða stoðþjónustunnar, og
• auka beina ráðgjöf til foreldra og stuðning við heimilin 3.

Fundurinn var vel sóttur og sýndu fundargestir málinu mikinn áhuga. Spunnust af því
fjöldi fyrirspurna og fjörugar umræður.

1. Guðríður Adda Ragnarsdóttir, 2000. Fljúgandi færir nemendur I & II. Um
Morningside skólann.
Morgunblaðið; menntun. 8. janúar, bls. 30 -31, og 22. janúar, bls. 34-35.
2. Guðríður Adda Ragnarsdóttir, 1998. Þjónusta sérfræðinga við börn í grunnskólum.
Ný menntamál, 16,1, 29-35.
3. Guðríður Adda Ragnarsdóttir, 1999. Gríptu til góðra ráða. Vísir að handbók í
atferlisstjórnun handa foreldrum, kennurum og ráðgjöfum í skólaþjónustu.
Akureyri: Skólaþjónusta Eyþings.