Að öllum líkindum mun töluverður fjöldi misþroska barna hefja skólagöngu á hausti
komanda, mjög mismunandi vel undirbúin fyrir þetta stóra skref. Sum þeirra hafa fengið
greiningu og með þau hefur verið unnið skipulega í lengri eða skemmri tíma af
iðjuþjálfum, talmeinafræðingum og öðru fagfólki. Í öðrum tilfellum er aðeins um grun
foreldra að ræða, greining hefur ekki fengist og lítið sem ekkert hefur verið unnið með
barnið og vandamál þess. Það liggur í augum uppi að það er mikill munur á því hvernig
skólinn getur undirbúið sig fyrir að taka á móti þessum börnum. Hér ætla ég að benda á
nokkrar leiðir og byggi bæði á minni eigin reynslu og annarra foreldra, auk þess sem ég
tek mið af reynslu minni sem kennari.
Það er ekki alls staðar tekið eins á málum og töluverður munur er á í hvaða bæjar- eða
sveitarfélagi fólk á heima. Samt er hægt að fara fram á ýmislegt.
Í fyrsta lagi skyldu foreldrar íhuga vandlega hvort ekki væri ráð að seinka barninu um
eitt ár í skóla strax í byrjun, þ.e. að það fái að vera eitt ár enn í leikskóla. Reynslan sýnir
að misþroska börn ná oft betur tökum á félagslega þættinum með aðeins yngri börnum.
Þetta getur einnig gilt með námið.
Seinkun er að sjálfsögðu undir því komin að framlenging sé möguleg, að barnið sé
ánægt og að það fái einhverja þjónustu sem að gagni kemur á leikskólanum. Í sumum
bæjarfélögum, eins og t.d. Reykjavík, er eiginlega alveg útilokað að fá leikskólavistun
framlengda. Annars staðar er það mun auðveldara.
Ef barnið á sér jafnaldra félaga, sem lenda í sama bekk, lítur málið að sjálfsögðu
öðruvísi út.
Í öðru lagi er gott að tilkynna barnið snemma til skólans og fara strax að kynna sér upp
á hvað er boðið þar. Er til dæmis sérkennsla vel skipulögð? Hversu margir eru í bekknum
og hvaða kennarar verða með hann? Oft heyrast raddir á borð við: „Þetta er nú ekkert til
að hafa áhyggjur af“; „Ekkert er að“ „Þetta kemur nú“, o.sv.fr. Ekki láta blindast af
þessu, þótt það sé oft sagt í hinum besta tilgangi. Ef foreldri telur líklegt að eitthvað sé að,
eru miklar líkur á að svo sé, jafnvel þótt það hafi ekki fengist staðfest með greiningu.
Í þriðja lagi er rétt að segja strax kennara frá barninu og láta hann fá bæklinga og
annað efni um misþroska, t.d. frá foreldrafélaginu.
Í fjórða lagi skuluð þið fara fram á fund með yfirmönnum skólans og umsjónaraðila
sérkennslu. Þar þurfa einnig að vera þeir sem hafa unnið með barnið á forskólaaldri, s.s.
fóstra, iðjuþjálfi, talmeinafræðingur og aðrir. Það getur kostað erfiði að koma þessum
fundi á, en þá veit skólinn miklu meira um hvað barnið kann, hinar sterku hliðar þess og
þær veikari, hvað gengið hefur vel og hvað verr, o.sv.fr.
Í fimmta lagi er mjög mikilvægt að skólinn bjóði upp á einhverja aukatíma í leikfimi
eða íþróttum. Miðað við reynslu okkar margra hefur skipulögð líkamsþjálfun ótrúlega
mikið að segja varðandi andlegan þroska barnsins. Ýmsir skólar hafa aukaleikfimi í
einhverju formi, þar sem ákveðnum hópi (jafnvel á mismunandi aldri) er stefnt saman
tvisvar til þrisvar í viku.
Í sjötta lagi er nauðsynlegt að venja barnið við tilhugsunina um að vera að byrja í
skólanum. Oft eiga misþroska börn í miklum erfiðleikum með sætta sig við breytingar í
lífsmynstrinu, og þótt þau hlakki til, er einnig mikill kvíði til staðar, einkum ef barnið er
afskipt félagslega af jafnöldrum. Þarna verður hvert foreldri fyrir sig að beita hyggjuviti
sínu.
Í sjöunda lagi þarf að fylgjast grannt með þegar skóli byrjar. Oft þurfa foreldrar
misþroska barna að hafa mikið fyrir því að útvega börnum sínum leikfélaga. Þetta er þó
stundum hægt með því að bjóða skólasystkinum með heim eða koma þeim saman í leik.
Þannig heimsóknir geta útheimt bæði mikla þolinmæði og aukavinnu við tiltekt, en geta
svo sannarlega verið þess virði, ef upp úr hefst góður kunningsskapur, jafnvel vinátta.
Í áttunda lagi er gráupplagt að nota heimilistölvuna (ef til er) við t.d. reikningsþjálfun,
að kenna á klukku og að þekkja stafi. Þolinmæði tölvunnar er svo óendanlega miklu meiri
en foreldranna! Til eru ýmis einföld forrit, t.d. hjá Námsgagnastofnun og jafnvel víðar.
Í níunda lagi þarf að fylgjast vel með líðan barnsins, þegar það kemur heim úr
skólanum. Ef það fer að verða órólegra og æstara en áður, er ekki ólíklegt að eitthvert
það áreiti sé í skólanum, sem það ræður ekki við. Það getur verið stríðni eða þá að barnið
finnur að það ræður ekki við þau verkefni sem því eru fengin. Öll þannig vandamál þarf
að leysa í samráði við kennarann og því fyrr sem rætt er við hann, þeim mun betra.
Í tíunda lagi þarf að fylgjast með því sem þarf til þess að barnið gert sig gildandi í
barnahópnum. Hvað þurfa menn að eiga til þess að vera taldir jafningjar? Stundum
brosum við að tískusveiflum barna og unglinga, en þær eru ekki síður raunverulegar en
hjá þeim sem eldri eru. Að sjálfsögðu er út í hött að hlaupa á eftir öllu því sem krökkum
dettur í hug að kaupa, en t.d. rétt húfa eða alvöru fótbolti getur gert kraftaverk.
Matthías Kristiansen (1989)