Til hvaða ráða getur kennarinn gripið?
Misþroska og/eða ofvirk börn (MBD - Minimal Brain Dysfunction/ ADHD - Attention Deficit Hyperactivity Disorder/DAMP - Deficits in Attention, Motor control and Perception) hafa öll fengið sömu greininguna, sem lýst er með þessu samnefni. Börnin geta þó verið að mörgu leyti mjög ólík og átt við mjög fjölbreytt vandamál að stríða. Sum glíma við margþætta hegðunar- og námsörðugleika, önnur hafa „bara“ hegðunartruflanir og enn önnur glíma „bara“ við námsörðugleika af allskonar tagi. Ástæður þessara hegðunar- og námsörðugleika geta verið fjöldamargar en öll þessi börn eiga það sameiginlegt að þau leggja bæði kennurum og foreldrum mikla ábyrgð á herðar.
Flest misþroska börn standa sig lakar en bekkjarfélagarnir í náminu. Geta þeirra til náms er þó yfirleitt meiri en þau sýna og þetta getur skapraunað mjög öllum hlutaðeigandi, jafnt barninu sjálfu og foreldrum þess sem kennurum.
Til þess að hægt sé að búast við viðunandi árangri misþroska barns í skóla, þarf kennarinn að byrja á því að kynna sér vel hegðun barnsins, einbeitingar- og hreyfigetu, skynúrvinnslu, málnotkun og almenna þekkingu þess. Þetta þarf síðan að bera saman við niðurstöður greiningar eða annarra gagna frá barnalækni, sálfræðingi eða öðrum fagaðila. Þessar upplýsingar fagmanna eiga að liggja fyrir í skólanum. Þær berast til skólanna en enda of oft sem rykfallið „trúnaðarmál“ ofan í skúffum skólastjórnar eða hjúkrunarfræðings.
Þessi undirbúningsvinna er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að útbúa einstaklingsbundna námsáætlun fyrir nemandann. Þannig áætlun er nær ómissandi fyrir misþroska barn, þar sem fæst þeirra geta unnið samkvæmt hefðbundinni aðferðafræði, auk þess framvinda náms þeirra er að jafnaði töluvert hægari en hjá bekkjarfélögunum.
Einstaklingsbundin námsáætlun
Þegar gerð er einstaklingsbundin námsáætlun, þarf að hyggja að þörf fyrir viðbótartíma og annan stuðning.
* Getur barnið fylgst með bekkjarkennslunni, ef einhver veitir
aðstoð í bekknum, t.d. sér til þess að réttar bækur séu teknar upp
úr töskunni, að vinna hefjist og að lokið sé við hana?
* Þarf hluti kennslunnar að fara fram „maður á mann“ með
einstaklingskennslu eða í litlum hópi?
* Eru erfiðleikarnir svo miklir að barnið þurfi stöðuga aðstoð
og verði þar af leiðandi að vera í sérbekk/sérskóla um lengri
eða skemmri tíma?
* Eru samskipti við önnur börn í frímínútum svo erfið
að sérstakan stuðning þurfi til þess að kenna barninu
að taka þátt í leikjum annarra barna?
* Hvað með leikfimitímana? Á barnið í þvílíkum erfiðleikum
með hreyfingar og skynúrvinnslu í tengslum við annað hvort að
klæða sig úr eða í eða að taka þátt í leikfiminni, að hún geti
endað með ósköpum? Er þá hægt að bjóða barninu að sækja
leikfimitíma í litlum hópi eða jafnvel að fara í sjúkraþjálfun?
Kennarinn þarf að fara yfir alla þætti skólaverunnar með barninu sjálfu og foreldrum þess. Hann þarf að komast að því hvað barnið ræður við og hvað er því ofviða. Að því búnu þarf að útbúa nákvæma og raunhæfa áætlun um þau langtímamarkmið, sem sett eru í hverri námsgrein fyrir sig og hvaða áfangamarkmið á að setja sér. Aðilar þurfa einnig að verða sammála um hvenær meta eigi árangur svo hægt sé að breyta þeim markmiðum sem unnið er eftir, sé þess þörf.
Mismunun
Þessi vinnubrögð fela það í sér, að börnum er mismunað. Þess vegna er mjög mikilvægt að bekkjarfélögunum sé kennt umburðarlyndi og skilningur á að sumir þurfi meiri aðstoð en aðrir, geti ekki gert það sama og aðrir, eigi verr með að átta sig á óhlutbundnum útskýringum en aðrir og þurfi á sérstökum hjálpartækjum að halda til þess að geta unnið.
Sum börn þurfa ef til vill auka vinnuhlé eða þá að þau verða að fá að hreyfa sig heldur oftar en aðrir í tímanum. Sé rétt að þessu staðið, fær barnið það á tilfinninguna, að það ráði við skólavinnuna og þetta leiðir til aukins sjálfstrausts sem aftur leiðir til öryggistilfinningar. Þegar barnið er orðið öruggt með sig í skólanum, getur það farið að taka við og hafa gagn af kennslunni.
Hafa ber í huga
Misþroska börn og/eða ofvirk er mjög mismunandi og þess vegna getur þörfin á sérstökum hjálparaðgerðum verið mjög mismunandi. Margar eftirfarandi ráðlegginga henta sumum börnum en alls ekki öllum. Þess vegna er nauðsynlegt að gera sér nákvæma grein fyrir náms- og afkastagetu hvers barns fyrir sig.
Skipulag og vinnuhefðir
Þar sem þessi börn eiga við erfiðleika að glíma á sviði afkasta, sjálfsstjórnar, skynjunar og málnotkunar, er skipulag og vinnuhefðir mjög mikilvægt atriði. Skynsamlegt er að hefja hvern tíma með því að skrifa á töfluna, hvað á gera í tímanum. Þegar lokið er við eitthvert atriði, er það þurrkað út af listanum. Ekki láta barnið velja sjálft. Sum geta nefnilega alls ekki valið og skipulagt vinnu sína. Gefið stutt og nákvæm fyrirmæli. Notið ekki mikið af óþarfa „uppfylliorðum“. Kannið hvort barnið hefur skilið fyrirmælin.
Að nota töfluna
Notið töfluna skipulega og til þess að styðja við munnleg fyrirmæli. Gætið þess að skrifað sé á töfluna af nákvæmni. Mismunandi stafagerðir eða hroðvirknisleg skrift getur valdið miklum ruglingi vegna skyntruflana nemandans. Strikið undir mikilvæg orð, til dæmis með litkrít. Mikilvægt er einnig að þurrka vel af töflunni, því punktar og strik geta ruglað nemandann í ríminu, þegar ný orð eru skrifuð og úr því verður oft hinn versti misskilningur.
Bekkjarstofa - niðurröðun í bekk - útbúnaður
Venjuleg og hefðbundin skólastofa er yfirleitt miklu betri fyrir flest þessara barna en opið umhverfi, þar sem alls konar aukahljóð og sjónrænt áreiti geta truflað. Bekkurinn verður að hafa fasta stofu og vera að mestu laus við tilfærslur. Útbúnaður og efni þarf að eiga sér fasta geymslustaði svo barnið geti alltaf fundið það sem leitað er að hverju sinni. Ekki þarf að taka fram að snyrtilegt þarf að vera í stofunni. Gott getur reynst að setja filtbúta undir borð og stóla til þess að koma í veg fyrir óþarfa óhljóð.
Kannið hvar barnið hefur það best í stofunni. Ekki er víst að það henti alltaf misþroska og/eða ofvirkum börnum að sitja fremst í bekknum. Sumir kunna best við sig aftast, einkum þeir sem alltaf verða að athuga hvaðan óvænt hljóð koma. Það tekur miklu styttri tíma að öðlast yfirsýn úr öftustu röð heldur en að sitja fremst og verða að snúa sér við til að kanna hvað er á seyði.
Oft er auðveldara að lesa við hallandi borð, þó þau séu nú reyndar fáséð í íslenskum skólum. Sum börn ráða betur við að skrifa, ef þau hafa t.d. þyngri blýant eða reglustriku; önnur þurfa aukagrip á borð við þríhyrnu, korkhólk eða Stetro-blýantgrip.
Eigi barn við miklar sjónskyns- og tengitruflanir (visuo-konstruktive problemer) að stríða, þarf að hafa til reiðu viðeigandi hjálpartæki á borð við límbókstafi, ritvél eða tölvu, sem oft er besti kosturinn. Sum börn eiga í svo miklum vandræðum með að skrifa að þau þurfa að heyra verkefnin og svara þeim á kassettu.
Auðvelt verður að vera að nálgast öll hjálpartæki.
Bækur
Best er að velja bækur þar sem texti og mynd renna ekki saman. Ef texti er prentaður inn á myndir eða litaðan bakgrunn, getur verið mjög erfitt að lesa hann. Best er að hafa stuttar línur, greinilegan texta og bil á milli lína. Þetta er líka gott að hafa í huga við gerð vinnublaða.
Ef erfitt er að finna nothæfar bækur, er hægt að komast hjá mörgum vandamálum með því að ramma viðeigandi texta inn með svörtu tússi. Stundum getur verið nauðsynlegt að skrifa textann á hvítt blað og líma hann inn í bók. Með tölvu er hægt að setja textann upp eins og manni hentar varðandi leturgerð og -stærð og línulengd og -bil um leið og hægt er að einfalda sjálfan textann.
Misþroska og/eða ofvirk börn eiga að fá að nota einnota bækur eins mikið og mögulegt er. Því fylgir smávegis aukinn kostnaður en þetta getur létt barninu starfið ótrúlega mikið.
Í stílabókum eiga að vera línur og spássía, sem kennarinn getur sjálfur dregið, ef hún ekki er til staðar. Reikningsbækur eiga að vera með stóra ferningslaga reiti. Skynsamlegt getur verið að láta koma fram, hvað snýr upp og hvað niður í bókinni, t.d. með mynd á forsíðu eða með því að númera síðurnar. Sum börn eiga í erfiðleikum með að átta sig á áttum og stefnu, hvað er upp og hvað er niður. Gott getur verið að hafa blokkir sem hægt er að rífa úr „ljótar“ og misheppnaðar síður.
Íslenska
Mikilvægt er að hafa í huga, að takmark móðurmálskennslunnar er að barnið eigi að hafa bæði gagn og gaman af tungumálinu.
Meginmarkmiðið er að misþroska og/eða ofvirkt barn með truflanir á sviði lesturs eða skriftar læri að lesa.
Undirmarkmiðið er að barnið læri að skrifa nokkurn veginn rétt. Að öllum líkindum verða ekki mörg þeirra rithöfundar eða íslenskukennarar, þannig að ef málfræðin er þeim of erfið er best að sleppa henni eins og hægt er!
Notið stóra bókstafi í lestrarkennslunni. Til þess liggja margar ástæður, sú mikilvægasta er ef til vill að stóru bókstafirnir eru alltaf „þeir sjálfir“, hvernig sem þeim er snúið. B verður aldrei D eða P. Ræðið útlit bókstafanna og nýtið ykkur hin ýmsu skilningarvit, líkamann og hugmyndaflugið til þess að hlusta á, horfa á eða þreifa á þeim. Reynið að komast að því, hvaða áhugamál barnið á sér og þá er jafnvel hægt að útbúa sérstakar bækur handa því byggðar á þessum áhugamálum. Það er hægt að gera margt með lítilli fyrirhöfn með skærum, lími og ljósritunarvél!
Sýnið barninu virðingu og látið t.d. ekki barn í 5. bekk hólkast yfir bókum úr 2. bekk.
Notið tæknina ykkur til hjálpar. Barn með miklar sjónskyns- og tengitruflanir lærir því miður ekki að skrifa betur með því að skrifa lon og don, meiri líkur eru á að það missi stjórn á skapi sínu. Gætið þess að þetta barn fái aðgang að ritvél eða ritvinnslu og helst þyrfti það líka að komast að hjá sjúkraþjálfara. Það gæti síðar meir leitt til þess að barnið læri að skrifa. Kannið hvað talmeinafræðingurinn eða sérkennarinn í tengslum við skólann getur boðið börnum með dyslexíu („lesblindu“), því sömu úrræði henta stundum umræddum börnum.
Stærðfræði
Lesörðugleikar valda óþarfa vandamálum í reikningi. Gætið þess að verkefnin séu lesin fyrir barnið nægilega oft til þess að það átti sig á því hvað á að reikna út. Látið barnið reikna með áþreifanleg dæmi eins lengi og hægt er. Þegar það er farið að þykja of barnalegt, er hægt að kenna þeim að reikna með aðstoð fingranna eða nota reglustrikuna við að leggja saman og draga frá og margföldunartöfluna við margföldun og deilingu. Algengt er að misþroska og/eða ofvirk börn geti ekki munað margföldunartöfluna en ekki er þar með sagt að þau viti ekki, hvenær á að margfalda.
Kennslubækur með mörgum dæmum á hverri síðu geta virst svo yfirþyrmandi að barnið gefst upp strax í byrjun. Hjálpið því með því að hylja yfir önnur dæmi en þau sem á að reikna eða útbúið færanlegan ramma.
Það er jafn mikilvægt að nota einnota bækur í stærðfræði og íslensku. Mjög erfitt getur reynst að afrita reikningsdæmi villulaust. Ef dæmið er rangt upp sett, verður útkoman ekki rétt.
Ekki er jafn löng hefð fyrir að skýrgreina námsörðugleika í stærðfræði og les- og skriftarörðugleika og ekki eru heldur til jafn skipulögð kerfi til þess að vinna með þennan vanda. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að gera sér nákvæmlega grein fyrir, í hverju vandinn liggur. Hægt er að leita sér aðstoðar við þetta á fræðsluskrifstofunum. Þess utan er nauðsynlegt að átta sig á, hvernig barnið hugsar. Fáið barnið til að „hugsa upphátt“. Lélegt skammtímaminni hefur áhrif á reiknigetuna. Barnið á ef til vill líka í erfiðleikum með átta sig á röðun og skilur það hvað núll er? Margir eiga í megnustu erfiðleikum með að átta sig á núlli inni í stórum tölum.
Sum börn kunna að taka til láns og geyma en fá röng svör, vegna þess að þau byrja vinstra megin í dæminu. Önnur geta einnig átt í erfiðleikum með að skipta frá einni reikniaðferð til annarrar og halda t.d. áfram að leggja saman, þótt þau eigi að draga frá.
Tónlist
Misþroska og/eða ofvirk börn hafa yfirleitt áþekkan áhuga á tónlist og börn almennt, það er að segja sum þeirra hafa mjög gaman af henni en önnur ekki. Yfirleitt á þessi hópur þó í megnustu erfiðleikum með tónlistarnám og hreyfivandamál og skyntruflanir eru stór þröskuldur í vegi þess að geta spilað sjálfur. Blokkflautan er mjög erfið vegna þess að þar er krafist töluverðrar getu á sviði fínhreyfinga, skynjunar og samhæfingar. Betra að er þessi börn fái ásláttarhljóðfæri eða önnur hljóðfæri, þar sem ekki er krafist samhæfingar 10 fingra, út- og innöndunar og nótnalesturs.
Ekki má gleyma því að tilgangur tónlistarkennslunnar er að kenna börnum að hafa gaman af alls konar tónlist. Tilgangurinn er ekki sá að framleiða atvinnutónlistarmenn. Þá þarf miklu meiri tíma og hæfileikar eru einnig nauðsynleg forsenda.
Aðrar greinar
Útilokað er að ræða allar kennslugreinar á þennan hátt en mörg áðurnefndra ráða eiga vitaskuld við um kennslu margra annarra greina.
Hér á eftir verða talin upp ýmis atriði, sem máli geta skipt fyrir misþroska og/eða ofvirkt barn, atriði sem í mörgum tilfellum ætti að vera hægt að krefjast fyrir fötluð börn.
• Sérstakt námsefni í sumum eða öllum greinum. Að öllum jafnaði ákveður fagkennarinn þetta í samráði við foreldrana og oftast er hér átt við að dregið er úr námsefnismagni.
• Nemandinn tekur próf einn í stofu. Börn með athyglistruflanir sýna betri árangur, þegar þau eru ein án utanaðkomandi áreitis.
• Hægt er að veita lengri prófatíma.
• Verkefnin eru lesin nægilega oft fyrir nemandann.
• Nemandinn fær að nota ritvél, tölvuritvinnslu eða fær aðstoð við að skrifa.
• Munnlegt próf. Þá þarf að koma til sérstakt skriflegt/munnlegt námsefni, sem er frábrugðið venjulegu munnlegu námsefni.
• Kennari og foreldrar sækja í sameiningu um til skólayfirvalda, að nemandinn fái undanþágu í einhverri ákveðinni grein.
Að lokum eru hér nefnd nokkur atriði, sem miklu máli skipta:
• Takið eftir því sem jákvætt er og hrósið. Öll börn hafa þörf fyrir viðurkenningu.
• Takið eitt skref í einu. Þessi börn gefast oft upp, ef þeim eru fengin margþætt verkefni samtímis. Byrjið á einu og einu verkefni en færið svo út kvíarnar smám saman.
• Forðist flókin skilaboð. Gefið stutt og einföld fyrirmæli og kannið hvort barnið skilur þau. Einnig má til viðbótar
o skrifa fyrirmælin.
• Vinnið með „uppbætur“. Áttið ykkur á hverju barnið hefur áhuga og hvað það ræður við. Styðjið við þessa þætti til þess
o að bæta því upp það sem það ræður ekki við.
• Gefið barninu tækifæri til þess að gefa munnlegt í stað skriflegs svars.
• Notið segulbandstæki. Kennarinn getur lesið fyrirmæli sín inn á hljóðsnældu sem nemandinn tekur með sér heim. Hægt er að leggja fyrir verkefni og svara þeim á snældu.
• Fáið kennslubækur og bókmenntir að láni á blindrabókasafninu.
• Látið barnið nota ritvél eða ritvinnslu.
• Látið barnið nota reiknivél.
• Gefið barninu tækifæri til að hreyfa sig og látið það líka hafa verkefni sem gefa því möguleika á að standa upp og hreyfa sig aðeins.
• Hjálpið foreldrunum með að glíma við uppeldið og vandamál því samfara - gerið ekki meira úr vandanum en þörf er á.
• Biðjið um aðstoð nógu fljótt. Kúguppgefnir kennarar í veikindaorlofi gera ekkert gagn í skólanum.
Höfundur er Gerd Strand, sérkennari með framhaldsmenntun og 20 ára starfsreynslu. Hún starfar við göngudeild taugadeildar sem er tengd Haukåsen-skólanum í Osló og starfar mest með börn með náms- og hegðunarörðugleika af líkamlegum ástæðum. Hún er í fagráði norska félagsins um misþroska.
Matthías Kristiansen þýddi og staðfærði.