Rannveig Lund er sérkennari og forstöðukona Lestrarmiðstöðvar Kennaraháskóla Íslands.
Í upphafi máls síns gat Rannveig þess að heiti fyrirlestrarins vísaði til þess að hann væri miðaður við börn á leikskólaaldri. Einnig gæti hann átt við þau sem þegar væru byrjuð í skóla en ekki tilbúin til að hefja eiginlegt lestrarnám.
Algeng forsaga
Rannveig byrjaði á að segja sögu af dreng. Í lýsingunni á drengnum dró hún fram þætti sem einkenna mörg misþroska börn og hafa áhrif á tilveru þeirra og samskiptin við aðra. Sagan kom inn á málhæfni, einbeitingu, virkni, formskyn og hreyfingar.
Jón var fljótur til máls. Foreldrarnir skildu vel það sem hann sagði, en ekki gegndi sama máli með aðra sem ekki þekktu hann jafnvel. Í leikskóla fóru erfiðleikar að koma í ljós. Hann vildi eingöngu leika sér með bíla og þekkti allar bílategundir með heiti út frá útliti og lögun. Þrátt fyrir gott formskyn varðandi bílategundir var annað uppi á teningnum varðandi púsluspil sem voru eitur í hans beinum.
Í sögustundum hlustaði hann ekki þegar lesið var heldur stríddi og áreitti hin börnin. Samt hlustaði hann vel einn með mömmu sinni. Við matarborð heima fyrir var hins vegar allt í hers höndum og hjónin höfðu gefist upp á að fara með hann í heimsókni vegna þess hvað drengurinn varð yfirþyrmandi líflegur við þær aðstæður. Þegar drengurinn var orðinn 5 ára ráðlagði fóstran móðurinni að fara með drenginn til barnalæknis vegna þess hve lengi hann hafði verið að ákveða hvora höndina hann ætlaði að nota. Niðurstaða læknis var að um misþroska væri að ræða sem ef til vill gæti leitt af sér námsörðugleika.
Fram kom að foreldrar voru ekki á sama máli hversu alvarlega bæri að taka þau ummæli og bregðast við þeim. Móðirin hafði áhyggjur af væntanlegri skólagöngu vegna þess sem læknirinn hafði sagt um námsörðugleika í tengslum við misþroska.
Hvernig námsörðugleika getur misþroski leitt af sér?
Skólinn okkar er að mestu leyti bóknámsskóli. Eigi einhver erfitt með að læra að lesa og skrifa, þarf hann mikið fyrir náminu að hafa þótt greind sé góð.
Ekki er hægt að setja samasemmerki á milli misþroska og námsörðugleika en misþroska börn eru áhættuhópur. Þau hafa mismunandi hæfileika og vanhæfni þeirra er á misjöfnum sviðum. Í sumum tilfellum hefur vanhæfnin áhrif á hæfileikann til að læra að lesa og stafsetja. Ekki er hægt að fullyrða um hvernig Jóni muni ganga í lestrarnámi þrátt fyrir misþroska-einkenni sín.
Rannveig lagði áherslu á, að þar sem lestur væri mál og sterk tengsl milli málhæfni og lestrarhæfni, þætti henni vænlegast að reyna að styrkja þær taugabrautir sem snúa að máli og málskynjun hjá þessum börnunum. Þannig væri tímanum best varið til undirbúnings lestrarnáms.
Að lesa fyrir börn
Áður en barnið fer sjálft að læra lesa þarf að undirbúa það fyrir mál bókarinnar með því að lesa fyrir það. Ritmál er öðruvísi en talmál, það er fjölbreyttara. Í talmálinu notum við oft svipbrigði, raddblæ og líkamsmál í stað orða.
Við aukum orðaforða barns með lestri þegar við:
1. Spyrjum það spurninga þannig að fram komi skilningur barnsins á orðum sem ekki eru algeng í talmáli:
* Dæmi úr sögu:
„Ekki snerta neitt í salnum“, sagði maðurinn í viðvörunartón“.
Foreldri spyr: „Var maðurinn glaðlegur eða var hann reiður þegar hann sagði þetta.“
Foreldri: „Er herbergið þitt eins stórt og salur?“
2. Að láta barnið hlusta á stuttar einfaldar sögur og hlusta oft á sömu söguna. Þannig eru möguleikar bestir á að barn festi orð og orðatiltæki í huga sér. Þá lærist líka hvenær við notum orð eins og hann og hún og rétta notkun sagnorða.
3. Að fá börn til að gera orð og orðasambönd bókarinnar virk í eigin tali með því að láta barnið rifja upp með sér sögu... af því að foreldrið er búið að „gleyma" hvað gerðist. Eða fá afa og ömmu til að spyrja um efni sögunnar sem verið er að lesa.
Rannveig benti einnig á að þegar fólk les, þá skapi það sér væntingar um hvað muni gerast á næstu blaðsíðu/blaðsíðum eða köflum út frá því sem áður er komið. Þetta stuðlar að auknum leshraða hjá þeim sem læsir eru. Hún benti foreldrum á að ýta undir þetta ímyndunarafl hjá börnunum með því að hætta að lesa á áhrifaríkum stað og spyrja: „Hvað heldur þú að gerist næst í sögunni?" og fá barnið til að ímynda sér framhaldið áður en það er lesið. Stuðningur af myndum er á blað-síðunum sem á eftir koma ýta einnig undir þessar væntingar.
Að læra tæknimálið
Rannveig sagði foreldra geta undirbúið börn með því að kynna þeim hugtök sem tengjast bókum og rituðu máli. Um leið og lesið er fyrir barn er hægt að kynna þeim á blaðsíðunni hvað orð er (í annari merkingu en eitthvað sem maður segir), lína, fyrsta orð í línu - síðasta orð í línu - efsta lína - neðsta lína - langt orð - stutt orð.
Þessi hugtök eru vissulega kennd í skólanum en gætu farið framhjá þeim sem erfitt eiga með einbeitinguna.
Að leika sér með orð
Þar sem lestur er mál,er ekki að undra þótt börn með máltruflanir séu í áhættuhópi gagnvart lestrarörðugleikum. Máltruflanir eru algengar meðal misþroska barna, en einnig annarra. Rannveig sagði frá rannsókn tveggja sænskra kvenna, Eva Magnusson og Kerstin Nauclér, sem leiddi í ljós sterk tengsl milli málvitundar og lestrarörðugleika.
Rannveig sagði að börn sýndu merki um málvitund þegar þau gætu beint athyglinni frá innihaldi þess sem sagt er (hugsuninni) og að orðunum sjálfum. Hún sagði að foreldrar gætu örvað málvitund barna sinna en þeir mættu ekki setja upp skólaaðstæður, heldur yrði að örva börn eins og fyrrnefndan Jón á því stigi sem hann er, með leikjum sem honum finnst gaman að, athygli og viðurkenningu.
Leikir sem fela í sér rím, takt og hljóðgreiningu eru vel til þess fallnir að ýta undir þessa vitund barna um málið. Tilfinning fyrir þessum atriðum eru góð undirstaða þegar að lestrarnámi kemur. Rannveig fór í gegnum leiki með orð (rímleiki, rytmaleiki, hljóð-greiningarleiki) sem foreldrar geta leikið við börn sín. Í lokin benti Rannveig á að foreldrar gætu ekki komið í veg fyrir að börnin þeirra fengju lestrarörðugleika ef sá veikleiki væri til staðar. Hins vegar gætu þeir stuðlað að því að lestrarörðugleikarnir yrðu vægari og ekki eins langvarandi ef eitthvað væri að gert á markvissan hátt.
Þrennt er vert er að benda á:
a) að foreldrar séu sammála um hvernig unnið sé að þessu,
b) börnunum sé ekki ofgert og
c) að glaðst sé yfir öllum jákvæðum breytingum.
Greinin er byggð á fundargerð og yfirfarin af fyrirlesara.