Fyrirlestur á vegum foreldra misþroska barna 8. mars 1995.
Fyrirlesari var Kristín Hallgrímsdóttir sálfræðingur hjá fjölskyldudeild
Félagsmálastofnunar Kópavogs.
Á síðasta vormisseri hélt Kristín ásamt öðrum sálfræðingi námskeið fyrir hóp barna
á aldrinum 10-12 ára í Kópavogi.
Með þessu námskeiði var fyrst og fremst stefnt að því að gera börnunum auðveldara
að eiga samskipti við aðra og stuðla að því að þau væru sáttari við sjálfa sig.
Markmiðið með námskeiðinu var að beina athyglinni að jákvæðum þáttum í
sjálfsmynd þátttakenda og að auka þol þeirra og umburðarlyndi gagnvart eigin
takmörkunum. Einnig var lögð mikil áhersla á að efla færni þeirra í félagslegum
samskiptum við jafnt jafnaldra sem fullorðna þannig að samskiptin yrðu markvissari og
ánægjulegri. Sjálfsmynd barns byggir mikið á því hvernig það upplifir samskipti sín við
jafnaldra og aðra og því eru þessir tveir þættir, sjálfsmynd og félagsleg samskipti, tengd
að verulegu leyti. Í stað þess að taka á vandanum í einstaklingsviðtölum var ætlunin að
nota þá möguleika sem hópvinna byði upp á til að ræða um, auka innsæi, deila reynslu og
ekki síst æfa færni í aðstæðum sem líkjast þeim sem börnin mæta í raunveruleikanum.
Kostir hópvinnu umfram einstaklingsviðtöl eru m.a. þeir að hvert barn upplifir að aðrir
eigi við líkan vanda að etja og það fær tækifæri til að prófa nýja hegðun við aðstæður í
hópnum sem líkjast því sem gerist í raunveruleikanum. Þar eru fleiri börn saman komin,
en jafnframt býr barnið við það öryggi sem leiðbeinandinn á námskeiðinu veitir.
Sá hluti persónuleikans sem manneskjan sjálf þekkir og viðurkennir er kölluð
sjálfsmynd. Eftir því sem barnið eldist stjórnast hegðun þess og líðan æ meira af því
hvaða hugmyndir það gerir sér um sjálft sig og hversu sátt það er við þær hugmyndir.
Hugmyndir barns um hvað það er og hvers virði það er, eru að stórum hluta fengnar með
því að skoða sig í þeim spegli sem aðrir eru.
En hvað felst í því að geta átt samskipti við aðra og af hverju er það svo mikilvægt?
Leikni í félagslegum samskiptum hefur verið lýst sem svo að hana þurfi að LÆRA,
leiknin felist í því að manneskja geti átt samskipti við aðra sem veki JÁKVÆÐ
VIÐBRÖGÐ, minni líkur séu á NEIKVÆÐUM VIÐBRÖGÐUM og einnig felist í henni
hæfileikinn til að NÁ ÞVÍ MARKMIÐI sem manneskjan setur sér með þeim samskiptum.
Barn sem á lítil samskipti fer á mis við heilmikið nám auk þess sem það veit af
einangrun sinni og líður fyrir hana. Lítil leikni í samskiptum eða samskiptahnútar eru
gjarnan tengdir öðrum vandkvæðum hjá börnum og þá jafnólíkum erfiðleikum og t.d.
kvíða og árásargirni. Það er því hægt að vinna óbeint með ólík vandamál með því að
beina kröftunum að því að auðvelda börnum að ná árangri í samskiptum sínum og að
leggja áherslu á að í þeim sé fremur jákvæður tónn en neikvæður.
Aðferðin, sem þetta námskeið byggðist á, fólst í því að lýsa hegðun barnsins út frá
hegðun þess eins og hún er núna, finna hvar skórinn kreppir og kenna barninu hegðun
sem það ræður ekki yfir. Nái barnið betri tökum á samskiptum sínum við aðra er nokkuð
víst að það verði sáttara við sjálft sig. Til að ná markmiðum námskeiðsins þurfti að nota
ákveðna vinnuaðferð. Börnin mættu tvisvar í viku í 1 1/2 klst. í fimm vikur; fyrsti
klukkutíminn var vinna en alltaf var endað með frjálsri samveru í spjalli yfir léttum
veitingum. Hverjum tíma var skipt í þrennt; í fyrsta lagi fræðsla, í öðru lagi voru unnin
verkefni í hóp og í þriðja lagi voru æfingar. Tillit var tekið til þess að börnin á
námskeiðinu komu úr fleiri en einum skóla og þekktust því mismikið og sum lítið sem
ekkert. Þess vegna var nauðsynlegt í byrjun að vera með verkefni og æfingar sem
beindust að því að stjórnendur og þátttakendur kynntust hver öðrum þannig að börnin
þyrðu að vera nokkurn veginn eins og þau ættu að sér að vera.
Nauðsynlegt var að byrja á því að skapa þægilegt andrúmsloft á námskeiðinu og
draga úr feimni og óöryggi. Fyrsta boðorðið er að leiðbeinandinn þarf alltaf að hafa það í
huga að hann er fyrirmynd um hvernig helst eigi að haga sér við þessar aðstæður; hann
gefur tóninn með framkomu sinni. Samhliða því að stjórna þarf hann að geta sett sig í
spor þátttakanda, hann er hvetjandi og úrræðagóður, hann veit hvernig hann á að bregðast
við truflunum og hræðslu hjá börnunum og margt fleira.
Í öðru lagi eru krakkarnir óvissir um til hvers er ætlast að þeim og því er alveg
nauðsynlegt að skýra vel fyrir þeim hvað ætlunin er að taka fyrir og hvernig. Það er ekki
alltaf nóg að lýsa því bara með orðum hvað ætlast er að krakkarnir læri, leiðbeinendur
verða að vera óhræddir við að setja á svið það sem þeir eru að tala um. Í byrjun er
krökkunum því kynnt það sem til stendur að fjalla um á námskeiðinu og kynntar þær
reglur sem eru í gildi.
Til að þjappa krökkunum meira saman og auka tilfinningu þeirra fyrir að þau væru í
sama báti, og að stuðla að því samskipti þeirra einkenndust fremur af samvinnu en
samkeppni voru ýmsar æfingar og leikir þar sem þau þurftu að snerta hvert annað og
hjálpast að (nafnaleikur, hnútar, treystu mér ganga, sjálfboðaliði). Þetta var
bráðnauðsynlegur hluti af námskeiðinu því að yfirleitt vöktu þessa æfingar mikla kátínu
og juku á nálægð milli krakkanna þannig að þau urðu virkari og auðveldara var að fara í
viðkvæmari þætti.
Fræðsluhlutinn fólst í því að leiðbeinandinn var með stutta tölu um ákveðið efni sem
síðan var rætt og þá fyrst og fremst út frá reynslu krakkanna í daglegu lífi þeirra.
Efni sem tekin voru fyrir voru aðallega af tvennum toga; Atriði sem lutu að hegðum
manneskju þegar hún á samskipti, og atriði sem lutu að því hvernig eigin hugsanir geta
haft áhrif á tilfinningar manns og líðan.
Fyrst var kynnt fyrir krökkunum á hvaða hátt fólk hagaði sér þegar það væri með
öðrum, hvernig aðrir brygðust við og hvernig ólík hegðun kallaði á mismunandi líðan.
Samskipti voru flokkuð í þrjá einfalda flokka; feimni - ákveðni - frekju. Í framhaldi af því
var athugað hvernig merkja mætti frekju, feimni og ákveðni í hegðun og þá tekin fyrir
ákveðin atriði eins og líkams- og raddbeiting og augnsamband út frá þeirri hugmynd að
oft skiptir meira máli hvernig maður segir hlutina en hvað maður segir.
Talsverðum tíma var eytt í að þjálfa ákveðni eða æskilega hegðun með því að leika
ýmsar aðstæður úr hinu daglega lífi. Æfingar og verkefni miðuðu ekki sístað því að gera
ýmis dagleg samskipti barnanna markvissari og árangursríkari, t.d.:
biðja kennara um aðstoð,
hlusta,
láta í ljós tilfinningar,
biðja foreldra leyfis til einhvers og
hrósa öðrum.
Í æfingunum voru þessar aðstæður brotnar niður í þrep og leiknar. Krakkarnir lögðu
síðan mat á frammistöðu hvers annars með aðstoð stjórnenda.
Í öðru lagi var mikil áhersla lögð á að kynna fyrir krökkunum áhrif annarra á
sjálfsmynd þeirra og hvernig megi brynja sig gagnvart neikvæðum viðbrögðum frá
öðrum.
Í þriðja lagi var talsverðum tíma eytt í að kenna þeim hversu mikið þeirra eigin
hugsanir ráða um tilfinningar þeirra og líðan. Unnin voru ýmis verkefni í því sambandi.
Tengt þessu var unnið mikið af ýmsum verkefnum sem beindust að því að vera
vakandi gagnvart því hvernig maður dæmir sjálfan sig, m.a. með því að kanna hvert er
algengt innihald hugsana sem vekja sárar eða leiða tilfinningar (að vera bestur, aldrei að
mistakast, allir eiga að vera sanngjarnir og góðir við mig, allt á að vera auðvelt fyrir mig).
Krakkarnir unnu síðan heimaverkefni tengt því sem verið var að gera í tímunum.
Þótt árangurinn af námskeiðinu verði ekki mældur með hlutlægum hætti var það mat
stjórnenda þess að þeim hefði miðað talsvert fram á við með krakkana. Þau kynntust
ákveðnum hugmyndum og fengu tækifæri til að tileinka sér viðhorf og hegðun sem kom
þeim að notum í hinu daglega lífi.
Erlendis eru svipuð námskeið haldin og standa í mun lengri tíma, jafnvel heilan
vetur. Námskeiðið í Kópavogi hófst ekki fyrr en nokkuð var liðið á vorönn. Kristín taldi
því heppilegra að námskeiðið hefði verið lengra, því það tekur einfaldlega tíma að vinna
með og breyta hugmyndum, tilfinningum, hegðun og öðru sem orðið er rótgróið.
Mikilvægt var að hafa í huga að undirbúa þarf þátttakendur undir svona námskeið og
þeir þurfa stuðning og hvatningu bæði frá foreldrum og leiðbeinendum á meðan á
námskeiðinu stendur.
Foreldrum var sent bréf til að kynna þeim námskeiðið en æskilegt hefði verið að
hafa tækifæri til að vera í meira sambandi og hafa meira samstarf við þá.
Lokaorð Kristínar voru þau að hún hefði trú á því að vinna af þessu tagi með
börnum skilaði árangri, en að það þurfi að gera ráð fyrir því að hún kosti talsvert, bæði í
tíma og peningum.
Guðný Ólafsdóttir tók saman.