Fundur með Garðari Viborg
Á félagsfundi þann 24. maí 1989 ræddi Garðar Viborg sálfræðingur um uppeldi barna.
*Skipulagt uppeldi er markviss vinna og er aðalatriði í uppeldi allra barna. Misþroski
barna leysir foreldra ekki frá uppeldinu, heldur krefst þess enn frekar að þeir skipuleggi
það. Það að hafa meðvitaða uppeldisstefnu er stórt atriði í uppeldi þessara barna.
Markmiðið er að reyna að draga úr neikvæðri hegðun, ekki að ganga út frá því að koma barni í
skilning um eitthvað í eitt skipti fyrir öll, það er ekki hægt.
*Mikilvægt er að kröfur séu gerðar í samræmi við hvern einstakling, að við gerum
okkur grein fyrir því hverjar eru forsendur viðbragða okkar. Er það okkar barn, meðal
barn eða óskabarnið sem við erum að fást við? Taka þarf tillit til aldurs og þroska
barnsins og taka eitt viðfangsefni fyrir í einu. Oft eru gerðar of miklar kröfur til barna.
Skortur á tíma foreldranna er ekki börnunum að kenna.
*Samhengi er á milli hegðunar foreldra og barna. Foreldrum hættir oft til að horfa frekar
á neikvæðu hliðarnar en þær jákvæðu. Ofvirkt barn hreyfir sig t.d. 300 sinnum á
klukkustund á meðan meðal barn hreyfir sig t.d. 100 sinnum. Foreldrar ofvirks barns ættu
þá að miða við 300 hreyfingar á klukkustund. Það mætti telja raunhæfar væntingar.
*Viðhorf foreldranna mótast af mörgum þáttum, t.d. af eigin uppeldi, menntun,
gildismati, skapferli og fleiri mannlegum þáttum. Foreldrar verða að læra að þekkja
sjálfa sig og börnin sín og þeir hafa valdið til að skapa jákvætt umhverfi. Misþroska barn
þarf að hafa fáar en skýrar reglur og fastar skorður á deginum. Samvinna foreldra er
einnig mikilvægt atriði.
*Æskilegt er að foreldrar geri sér grein fyrir því hvað er jákvæð og hvað er neikvæð
hegðun hjá barninu og vera sammála um það. Þeir verða að vita við hvað er miðað þegar
hrósað er eða skammað. Börn eru oft skömmuð of mikið. Foreldrar verða að vera
samkvæmir sjálfum sér og reyna að bregðast alltaf eins við sambærilegum aðstæðum,
gera sér grein fyrir hvenær barnið er erfitt og hvenær hegðun barnsins er áhrif frá foreldri.
Hrós gefur meiri árangur í uppeldi en skammir.
*Mikilvægt er að sýna sterk, jákvæð viðbrögð við góðri frammistöðu barnanna.
*Vitsmunaleg úrvinnsla, atburður, hugsun, tilfinning og hegðun eru mikilvægir þættir í
uppeldi allra barna. Þau verða að læra á umhverfið, samskiptareglur, tilfinningaleg
viðbrögð, orsök og afleiðingu.
*Misþroska börn eru oft á eftir í félagsþroska og eiga því oft erfitt með að læra þessa
þætti. Foreldrar verða að hjálpa börnum sínum að læra að gera greinarmun á tilfinningu
og hegðun. Allar tilfinningar og hugsanir eiga rétt á sér, en ekki allar athafnir. Fólk á rétt
á að sýna allar tilfinningar, en ekki að framkvæma allar athafnir sem þessum tilfinningum
fylgja, t.d. að brjóta hluti, meiða og svo framvegis.
*Mikilvægt er að spjalla við barnið, gera sér grein fyrir hvernig barnið upplifir
aðstæður, gæta þess að vera ekki neikvæður, ræða málin og sýna samkennd með barninu
en ekki hafna því. Ekki spyrja sífellt: „Af hverju ?“, það hljómar eins og skammir.
*Sé gripið til refsinga eiga þær að vera markvissar, því að annars koma þær ekki að
gagni. Hótun um refsingu, ómarkviss refsing, loforð um umbun fyrir æskilega hegðun, og
neikvæðar athugasemdir höfða til sjálfsímyndar barnsins og auka vanmáttarkennd þess.
Vanmáttarkenndin eykur svo enn erfiðleika barnsins. Oft getur reynst vel að taka barn úr
erfiðum aðstæðum þegar æsingur fer úr hófi fram. Þarna reynir verulega á sjálfsstjórn
foreldranna og er nauðsynlegt að bregðast strax við, í samræmi við hegðun barnsins en ekki
skap foreldranna. Þetta er auðvitað ekki alltaf hægt, en þeir verða bara að reyna. Börn
verða að læra að taka afleiðingum gerða sinna. Refsing eyðir sektartilfinningu barns-ins,
en dugar ekki ef hún er ekki í samræmi við það sem refsað er fyrir.
*Æskilegt væri að foreldrar skipuleggðu eitthvað jákvætt með börnum sínum án
skilyrða á hverjum degi (eða hverri viku), óháð hegðun barnsins. Mörg börn þurfa hjálp
foreldra til að finna vini og halda þeim.
*Sjálfstjórn foreldranna er einn mikilvægasti þátturinn í uppeldi allra barna og þá ekki
síst misþroska barna. Þeir mega aldrei hóta eða lofa neinu nema að geta staðið við það.
*Óvirkt barn laðar annað fram hjá fólki en ofvirkt barn.
*Afskiptaleysi foreldra kallar fram neikvæða hegðun. Ofvirkt barn verður ef til vill enn
ofvirkara og óvirkt barn enn óvirkara. Það að foreldrar láti undan og gefist upp, taki sig á
og byrji upp á nýtt, eru eðlileg viðbrögð sem flestir foreldrar sýna án þess að eiga
misþroska börn.